Home / Fréttir / Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá því að Masha Amini, 22 ára Kúrdi í Íran, dó í haldi lögreglu. Aktívistar segja að hörkulegri aðgerða lögreglu verði nú vart vegna ótta yfirvalda við endurtekin og víðtæk mótmæli gegn klerkaveldinu í landinu.

Trúarlögregla Írans handtók Amini fyrir brot á ströngum reglum um klæðaburð kvenna sem settar voru skömmu eftir valdatöku klerkanna í íslömsku byltingunni árið 1979. Fjölskylda Amini segir að hún hafi látist vegna höfuðhöggs en írönsk yfirvöld hafna því.

Eftir dauða hennar fór alda mótmæla af stað og í margar vikur brutu konur bannreglur með því að hætta að ganga með lögbundnar höfuðslæður. Ögruðu þær á þann hátt stjórnkerfi og stjórnarháttum Íslamska lýðveldisins undir forystu æðsta klerksins, Ayatollah Ali Khameneis.

Í frásögnum fólks utan Írans kemur fram að Amjad Amini, faðir Möhsu Amini, hafi verið í haldi lögreglu í skamma stund að morgni laugardagsins 16. september. Var fjölskylda hennar beitt þrýstingi til að efna ekki til minningarathafnar.

Í frásögnum sem IRNA, ríkisfréttastofa Írans, birti segir að frásagnir um að Amjad Amini hafi verið handtekinn séu „rangar“ og birtar til þess að „espa fólk til mótmæla“.

Ekki mátti sjá neitt sem benti til minningarathafnar við gröf Möhsu í Aichi-kirkjugarðinum í heimabæ fjölskyldu hennar, Saqez. Sumar fréttir herma að lögregla hefði lokað leiðum að gröfinni.

Þegar mótmælin vegna dauða Möhsu höfðu staðið í nokkra mánuði dró úr áhuga á þátttöku í þeim. Lögreglan beitti mótmælendur mikilli hörku og telja Mannréttindasamtök Írana, með höfuðstöðvar í Noregi, að 551 mótmælandi hafi fallið. Amnesty International telur að rúmlega 22.000 hafi verið handteknir.

Írönsk yfirvöld segja tugi öryggislögreglumanna hafa fallið í „óeirðum“ að tilhlutan erlendra stjórnvalda og óvinveittra fjölmiðla.

Sjö karlmenn hafa verið teknir af lífi eftir dóma í málum sem tengjast mótmælaaðgerðunum.

Talsmenn samtakanna Human Rights Watch í New York segja að skyldmenni að minnsta kosti 36 einstaklinga sem hafa fallið eða verið teknir af lífi í lögregluaðgerðunum hafi verið yfirheyrðir, handteknir, ákærðir eða dæmdir í fangelsi undanfarinn mánuð.

Stöðvar utan Írans sem senda út efni á persnesku sýna efni af íbúum í Teheran sem hrópa við fjölbýlishús: Drepist harðstjórinn! og helsta slagorð mótmælenda: Kona, líf, frelsi!

Enn má sjá nokkrar konur á gangi utan dyra án þess að hafa höfuðslæður, einkum í frjálslyndum hverfum betri borgara fyrir norðan Teheran. Á afturhaldssömu þingi landsins er um þessar mundir til meðferðar frumvarp sem herðir refsingar þeirra sem fara ekki að fyrirmælum um klæðaburð.

 

Heimild: AFP

Skoða einnig

Rússar senda liðsauka til úrvinda hersveita í suðaustur Úkraínu

Rússar flytja nú aukinn herafla til suðausturhluta víglínunnar í stríðinu við Úkraínu og bregðast á …