
Nýr brexit-samningur milli ESB og Breta er „í stórum dráttum fyrir hendi“ og „fræðilega“ getur ESB samþykkt hann fimmtudaginn 17. október, sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, við AFP-fréttastofuna miðvikudaginn 16. október.
„Í gærkvöldi var ég tilbúinn til að veðja á þetta [að samningurinn yrði samþykktur]. Í dag láta Bretar í ljós efasemdir,“ segir ESB-forsetinn.
Þá herma fréttir að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hafi á ráðherrafundi miðvikudaginn 16. október sagt að samningurinn væri næstum tilbúinn.
„Það eru líkur á góðum samningi en hann er ekki enn á borðinu og enn þarf að binda lausa enda,“ sagði talsmaður Boris Johnsons á blaðamannafundi síðdegis á miðvikudeginum.
Ætlunin var að Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, ræddi við leiðtoga ESB óformlega og gerði þeim grein fyrir stöðu mála síðdegis á miðvikudeginum. Dróst það framundir kvöldmat.
Um það leyti sem þess var vænst að Barnier gerði grein fyrir niðurstöðunni birti BBC frétt um að heimildarmaður innan breska stjórnarráðsins segði að ekki yrði „neinn samningur í kvöld“. Raunar sagði fréttamaður BBC að allt væri í óvissu um hvort samið yrði í þessari viku,
Boris Johnson leggur hart að sér við að fá brexit-sinna í þingflokki sínum og þingmenn DUP, Lýðræðisflokksins á N-Írlandi til að styðja tillögur sínar um landamærin á Írlandi. Þingmenn DUP eru sagðir tregir í taumi fyrir forsætisráðherrann.