Home / Fréttir / Spenna á þýsk-pólsku landamærunum vegna farandfólks

Spenna á þýsk-pólsku landamærunum vegna farandfólks

Liðsmenn öfgahreyfingarinnar Der Dritte Weg í Þýskalandi.

Hundruð þýskra lögregluþjóna eru við gæslustörf á landamærum Þýskalands og Póllands vegna þess hve mikið af farandfólki sem flogið var með til Hvíta-Rússlands sækir vestur á bóginn.

Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði við Bild am Sonntag 24. október að lögreglan stæði þarna vörð allan sólarhringinn og dygði ekki sá fjöldi lögreglumanna sem þegar hefði verið sendur þangað yrði fjölgað í liðinu.

Ráðherrann sagðist sannfærður um að í samræmi við evrópskar hugsjónir vildu allir vita hverjir sæktu þá heim. Það væri fyllilega lögmætt að verja ytri landamæri á þann veg að fylgst væri með ferðum yfir þau og þeir stöðvaðir sem ættu ekki lögmætt erindi.

Þýskir lögreglumenn voru kallaðir út að morgni sunnudags 24. október til að dreifa 50 manna hópi liðsmanna hreyfingarinnar „Þriðja leiðin“ Der Dritte Weg sem fjölmiðlar lýsa sem öfgahópi til hægri. Ætlaði hópurinn að hefja landamæravörslu og hrekja aðkomumenn frá landamærunum.

Þýska leyniþjónustan telur þessa hreyfingu ofbeldisfulla og hættulega. Lögregla lagði hald á sveðjur, byssustingi, barefli og piparúða.

Stjórnvöld Póllands, Lettlands og Litháens hafa lýst yfir neyðarástandi á landamærunum gagnvart Hvíta-Rússlandi vegna ásóknar farandfólks. Af hálfu ESB eru stjórnvöld Hvíta-Rússlands sökuð um að ýta undir ólöglega för fólks inn í ESB-ríki. Á þann hátt vilji þau hefna fyrir refsiaðgerðir ESB vegna deilna um lögmæti hvítrússnesku forsetakosninganna í ágúst 2020.

Fyrr í október sagði Frontex, landamærastofnun Evrópu, að áhrif vegna þessara ólögmætu ferða frá Hvíta-Rússlandi væru mest í Litháen, þar hefðu verið skráðar 4.170 ólöglegar ferðir frá áramótum en 1.380 í Póllandi.

Í liðinni viku sagði þýska innanríkisráðuneytið að skráðar hefðu verið 5.700 ólöglegar komur til Þýskalands með tengsl við Hvíta-Rússland.

Þýska innanríkisráðuneytið segir að flugfélag í Írak lofi að hætta flugi til Hvíta-Rússlands og er það í samræmi við tilmæli ESB til flugfélaga um að hætta ferjuflugi með hugsanlega hælisleitendur til Hvíta-Rússlands.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, neitaði hins vegar föstudaginn 22. október að verða við óskum þriggja nágranna Hvíta-Rússlands og stjórnvalda níu annarra ESB-landa um að veita fé til að reisa gaddavírsgirðingu á landamærunum gagnvart Hvíta-Rússlandi.

Litháar vinna að því að girða land sitt en Pólverjar óskuðu eftir 350 milljónum evra frá ESB.

Seehofer vill ekki að landamærunum gagnvart Póllandi sé lokað en hann lagði í liðinni viku til við Mariusz Kaminski, innanríkisráðherra Póllands, að stofnað yrði til sameiginlegra eftirlitsferða pólskra og þýskra landamæravarða. Sagðist pólski ráðherrann styðja það „heilshugar“.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …