Home / Fréttir / Spenna á landamærum Ítalíu og Frakklands – No Borders-menn hvetja til ofbeldis

Spenna á landamærum Ítalíu og Frakklands – No Borders-menn hvetja til ofbeldis

Ólöglegir aðkomumenn í fjörunni við Menton í Frakklandi.
Ólöglegir aðkomumenn í fjörunni við Menton í Frakklandi.

Spenna ríkir í franska Miðjarðarhafsbænum Menton við landamæri Ítalíu vegna þess að föstudaginn 5. ágúst tókst um 200 farandmönnum að brjóta sér ólöglega leið þangað frá Ítalíu með aðstoð félaga í No Border-samtökunum. Ráðamenn í bænum krefjast þess að landamæravarsla verði stóraukin til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Af þeim 200 sem tókst að komast yfir landamærin í þessum átökum handtók franska lögreglan 152 strax sama kvöldið og sendi þá aftur til Ítalíu.

Aðkomumennirnir ólöglegu eru flestir frá Afríku, Súdanir eða Erítreumenn. Menton er í franska héraðinu Alpes-Maritimes sem nær meðal annars til Nice. Héraðsstjórnin segir að frá áramótum fram til 28. júlí 2016 hafi 14.000 ólöglegir aðkomumenn verið stöðvaðir í héraðinu, svipaður fjöldi og á sama tíma 2015. Um 90% þeirra voru sendir aftur til ítalíu.

Éric Ciotti, þingmaður lýðveldissinna (mið-hægrimanna) og forseti héraðsráðs Alpes-Maritimes, krefst þess að landamæravarsla gagnvart Ítalíu verði hert, hún sé ónóg nema um borð í járnbrautarlestum sem fara á milli landanna. Ciotti gagnrýnir Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra í stjórn sósíalista, fyrir að láta undan mótmælendum innan Frakklands. Hann segir eitt að ólöglegum aðkomumönnum fjölgi, hitt sé verra að aðgerðasinnar á borð við No Borders láti í vaxandi mæli að sér kveða. Það sé til skammar og leiði aðeins til ofbeldis. Yfirvöld líði þetta þótt neyðarástandi hafi verið lýst í landinu.

Ítalski bærinn Vintimille er næst frönsku landamærunum. Þar hafa farandmenn safnast saman í von um að komast ólöglega til Frakklands. Laugardaginn 6. ágúst fékk 53 ára gamall ítalskur lögreglumaður hjartaáfall og dó þegar kom til átaka í bænum við félaga í No Borders og aðra aðkomumenn. Spennan magnaðist svo hratt að Angelino Alfano, innanríkisráðherra Ítalíu, sagði sunnudaginn 7. ágúst: „Við viljum koma í veg fyrir að Vintimille breytist í nýja Calais.“

Þar vísaði ráðherrann til vandræðanna sem skapast hafa í franska bænum Calais við Ermarsund vegna þúsunda ólöglegra aðkomumanna sem þar hafa búið um sig í von um að komast þaðan ólöglega til Bretlands. Félagar í No Borders hafa staðið að mótmælum og óeirðum í Calais. Um þúsund farandmanna hafa nú búið um sig í Vintimille.

Samvinna er milli franskra og ítalskra stjórnvalda við landamæravörsluna. Þau hafa unnið að því að leysa upp smyglhringi sem starfa við landamærin og segir franska innanríkisráðuneytið að í ár hafi 221 hringur verið leystur upp á þessum slóðum miðað við 177 á sama tíma í fyrra. Bæjarstjórinn í Menton segir þessa tölu alls ekki segja alla söguna því að ólöglegum aðkomumönnum fjölgi dag hvern og þegar talað sé um smyglara sé aðeins átt við ósköp venjulega farandmenn.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …