Home / Fréttir / Spánn: Sósíalistar sitja áfram með stuðningi aðskilnaðarsinna

Spánn: Sósíalistar sitja áfram með stuðningi aðskilnaðarsinna

Carles Puigdemon og Pedro Sanchez

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hefur samið við aðskilnaðarsinna í Katalóníu um að þeir styðji sósíalista áfram til stjórnarsetu. Frá þessu var skýrt fimmtudaginn 9. nóvember.

Formaður flokks sósíalista, Pedro Sanchez hefur nú umboð til 27. nóvember til að koma saman starfhæfri ríkisstjórn eða þing verður rofið og boðað til kosninga að nýju.

Til að halda völdum verða sósíalistar að tryggja sér stuðning aðskilnaðarflokkanna í Katalóníu. Forsætisráðherrann hefur nú fallist á kröfur þeirra um sakaruppgjöf fyrir alla þá sem sóttir hafa verið til saka fyrir hlut þeirra að misheppnaðri aðskilnaðartilraun Katalóníumanna frá Spáni árið 2017.

Forsætisráðherrann hefur kynnt frumvarp til laga til að tryggja framgang sakaruppgjafarinnar.

Frumvarpið sætir mikilli gagnrýni forystumanna Lýðflokksins (mið-hægri) og talsmanna dómsvaldsins. Sanchez er sakaður um spillingu og óvirðingu við réttarríkið. Þá hefur komið til mótmæla víða um Spán vegna áforma forsætisráðherrans.

Fimmtudaginn 9. nóvember rituðu fulltrúar sósíalista og harðlínu-aðskilnaðarflokksins JxCat undir samkomulag án þess að skýrt væri frá efni þess.

Aðskilnaðarsinninn Carles Puigdemon, leiðtogi JxCat, hefur dvalist landflótta í Brussel til að komast hjá saksókn á Spáni.

Vegna áformanna um sakaruppgjöf hefur verið efnt til mótmæla við flokksskrifstofur sósíalista í Madrid, Barcelona og Valenciu

Alberto Nunez Feijoo, formaður Lýðflokksins, sagði á fundi laugardaginn 4. nóvember að það væri spilling að skipta á atkvæðum og sakaruppgjöf. Hann hét því á fjöldafundi í Valenciu sunnudaginn 5. nóvember að standa vörð um Spán.

Lýðflokkurinn fékk flest atkvæði í þingkosningunum 23. júlí en Feijoo hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn.

Sanchez lýsti á sínum tíma andstöðu við sakaruppgjöf aðskilnaðarsinna og sætir nú ásökunum um að brjóta allar brýr að baki sér til að halda völdum. Hann hefur snúist af hörku gegn mótmælendum og sagt þá vinna gegn lýðræðinu.

Samtök spænskra dómara sem ná til meirihluta dómara landsins lýstu í fyrri viku áformum Sanchez um sakaruppgjöf sem upphafi á endalokum lýðræðisins og þau myndu eyðileggja réttarríkið.

Eftir misheppnaða tilraun til að segja Katalóníu úr lögum við Spán árið 2017 sótti spænska ríkið hundruð manna til saka. Í Katalóníu var aðgerðunum líkt við tilburði til kúgunar.

Helstu foringjar aðskilnaðarsinna flúðu land, þeirra á meðal Puigdemont, eða hlutu allt að 13 ára fangelsisdóma.

Sanchez varð forsætisráðherra eftir kosningar sem fóru fram þegar aðeins mánuður var liðinn frá aðskilnaðartilrauninni. Hann naut þá stuðnings aðskilnaðarsinna og hefur lagt sig fram um að minnka spennu í Katalóníu.

Á árinu 2021 náðaði hann níu aðskilnaðarsinna sem sátu í fangelsi. Árið 2022 beitti hann sér fyrir breytingum á hegningarlögum með því að fella niður að refsivert væri að stofna til andófs og æsinga gegn ríkinu. Höfðu aðskilnaðarsinnarnir verið sakfelldir með vísan til lagaákvæða um uppþot.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …