
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, býður verðandi héraðsstjórn Katalóníu samstarf en hafnar þó boði frá Carles Puigdemont, leiðtoga fráfarandi héraðsstjórnar, um fund.
Puigdemont leitaði skjóls í Brussel eftir að Rajoy og stjórn hans ákvað að héraðsstjórnin í Katalóníu skyldi sótt til saka fyrir stjórnarskrárbrot. Rajoy boðaði síðan til aukakosninga til héraðsþings Katalóníu fimmtudaginn 21. desember.
Katalónskir sjálfstæðissinnar í þremur stjórnmálaflokkum: Junts per Catalunya (JxCat, Sameinuð fyrir Katalóníu), flokkur Puigdemont; Vinstri lýðveldissinnar Katalóníu (ERC) og Almenna einingarframboðið (CUP), hlutu 70 þingsæti af 135 í héraðsþingi Katalóníu í kosningum.

Sambandssinnar í Ciutadans, héraðshluti nýlegs miðjuflokks, Borgaranna, hlaut flesta þingmenn 37, hafði 25. Þykir þetta mikill persónulegur sigur fyrir Inés Arrimadas, 36 ára, hrífandi leiðtoga flokksins. Mið-hægriflokkur Marianos Rajoys, forsætisráðherra Spánar, galt afhroð, fékk aðeins 3 þingmenn, hafði 11.
Þegar úrslitin lágu fyrir óskaði Carles Puigdemont eftir fundi með forsætisráðherranum Rajoy utan Spánar. Á blaðamannafundi föstudaginn 22. desember svaraði Rajoy spurningu á þann veg að hann ætlaði ekki að hitta Puigdemont.
Þrátt fyrir þetta bauðst Rajoy til að vinna með komandi héraðsstjórn Katalóníu. Hann varaði við því að enn á ný yrði með einhliða ákvörðunum reynt að skilja Katalóníu frá Spáni. Allir í Evrópu ættu að átta sig á svo sjálfsögðum hlut.
Forsætisráðherrann fordæmdi alla sundrung innan spænsks samfélags, hún væri af hinu illa. Á henni yrði að sigrast. „Við þörfnumst hagvaxtar að nýju,“ sagði Rajoy. Það markmið næðist þó ekki án pólitísks stöðugleika. Hann margítrekaði að virðing fyrir lögum og rétti væri forsenda slíks stöðugleika. Með þeim orðum hvatti hann til virðingar fyrir stjórnarskránni sem mælti fyrir um landfræðilega einingu þjóðarinnar innan núverandi landamæra þess.
Áður en Rajoy ræddi við blaðamenn hafði Carles Puigdemont hitt blaðamenn í Brussel þar sem hann er enn í útlegð og sagt að hann vildi ræða við fulltrúa spænskra stjórnvalda en fundurinn yrði að vera utan Spánar. Rajoy yrði að viðurkenna sigur sjálfstæðissinna.
Héraðsstjórn Katalóníu efndi til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Spáni meðal íbúa héraðsins 1. október 2017 þrátt fyrir bann æðsta dómstóls Spánar. Í lok október lýsti héraðsþing Katalóníu yfir sjálfstæði Lýðveldisins Katalóníu. Við það svipti stjórnin í Madrid héraðsstjórnina völdum og tók þau í sínar hendur. Leysti Puigdemont og stjórn hans frá völdum og boðaði til kosninga. Skipun var gefin um að handtaka Puigdemont en hann flúði til Belgíu til að verða ekki fangelsaður.