Home / Fréttir / Spánn: Rajoy felldur með vantrausti – Sánchez næsti forsætisráðherra

Spánn: Rajoy felldur með vantrausti – Sánchez næsti forsætisráðherra

Pedro Sánchez verður næsti forsætisráðherra Spánar.
Pedro Sánchez verður næsti forsætisráðherra Spánar.

Spænska þingið samþykkti (180:169) föstudaginn 1. júní vantraust á Mariano Rajoy forsætisráðherra vegna fjármálahneykslis. Þar með liggur beint við að Pedro Sánchez, leiðtogi sósíalista, taki við embætti forsætisráðherra.

Í fyrri viku voru 29 manns með tengsl við Alþýðufylkinguna (PP), flokk Rajoys, dæmdir fyrir fjármálamisferli, í þeim hópi voru menn sem í kjörnum trúnaðarstörfum á vegum flokksins. Þá var flokkurinn sjálfur dæmdur fyrir að eiga lokaða bankareikninga sem tengjast mútusjóðum.

Alls greiddu 180 þingmenn atvæði með vantrauststillögunni en 169 gegn henni, einn þingmaður greiddi ekki atkvæði. Sósíalistaflokkurinn flutti tillöguna en hann á 84 þingmenn, vinstra bandalagið Unidos Podemos með 67 þingmenn studdi tillöguna og auk þess sem ýmsir héraðsbundnir flokkar.

Áður en gengið var til atkvæði sagði Rajoy (63 ára) að það væri sér heiður að skila Spáni í betri stöðu en þegar hann var kallaður til forystu. Hann árnaði Sánchez (46 ára) heilla sem næsti forsætisráðherra.

Stjórnmálaskýrendur segja að Rajoy hafi vissulega leitt Spánverja út úr efnahagsþrengingunum frá því að komst til valda árið 2011 en aðhaldsaðgerðir hans í ríkisfjármálum hafi ýtt undir ójöfnuð og honum hafi mistekist að minnka atvinnuleysið í landinu. Flokkur hans hefur legið undir stöðugum ásökunum um spillingu undanfarin ár og dómsmálið í fyrri viku er einni angi þeirra.

Lýðræði var innleitt á Spáni árið 1975 eftir dauða einræðisherrans Franciscos Francos. Á árunum sem síðan eru liðin hefur aldrei fyrr dregið til þeirra stórtíðinda að forsætisráðherrann sé hrakinn úr embætti með vantrausti.

Dómstóll í Madrid komst að þeirri niðurstöðu í fyrri viku að 29 manns skyldu sitja samtals í 351 ár í fangelsi vegna tengsla við mútusjóð sem stofnaður var á tíunda áratrugnum og fjármagnaði kosningabaráttu PP. Flokkurinn var sektaður um 245.000 evrur (30 milljónir ísl. kr.) fyrir að hagnast á misferlinu. Enginn af núverandi ráðherrum flokksins var fundinn sekur.

Talið er líklegt að Sánchez myndi ríkisstjórn mánudaginn 4. júní. Ólíklegt er talið að flokkarnir sem studdu vantrauststillöguna styðji stjórn undir forsæti Sánchez. Því er spáð að spænska þingið verði rofið innan skamms og efnt til kosninga.

 

 

Skoða einnig

Pútin hefur ekki tíma til kosningabaráttu í fjölmiðlum

Rússneska forsetakosningabaráttan hófst formlega laugardaginn 17. febrúar og þá staðfesti yfirkjörstjórnin og talsmaður Kremlverja ákvörðun …