Home / Fréttir / Spánarkonungur fjarlægist föður sinn

Spánarkonungur fjarlægist föður sinn

 

Filippus VI. Spánarkonungur og Jóhann Karl, faðir hans.
Filippus VI. Spánarkonungur og Jóhann Karl, faðir hans.

Filippus VI. Spánarkonungur ákvað sunnudaginn 15. mars að fjarlægjast Jóhann Karl, föður sinn og forvera. Konungurinn fyrrverandi er flæktur í hneykslismál. Filippus hafnar arfi frá föður sínum.

Fyrr í mánuðinum var sagt frá því í svissneska blaðinu Tribune de Geneve að Jóhann Karl (82 ára) hefði fengið 100 milljónir dollara frá Sádi Arabíu í gegnum aflandsreikning. Fjármunirnir voru á svissneskum bankareikningi í nafni sjóðs í Panama. Blaðið segir að Jóhann Karl hafi gefið 65 milljónir dollara af innstæðunni til Corinnu zu Sayn-Wittgenstein, fyrrverandi hjákonu sinnar.

Í breska blaðinu The Daily Telegraph birtist síðar frétt um að Filippus kóngur (52 ára) væri í hópi þeirra sem nytu góðs af sjóðnum sem Jóhann Karl stofnaði á meðan hann sat enn á hásæti.

Sunnudaginn 15. mars birti Spánarkonungur tilkynningu um að í apríl í fyrra hefði hann skýrt lögformlegum fulltrúa frá því að hann ætlaði ekki að þiggja neitt fé úr umræddum sjóði.

Hann sagðist ekki hafa minnstu hugmynd um hvers vegna nafn sitt væri tengt öðrum sjóði sem fjölmiðlar segja að hafi staðið undir milljóna evru kostnaði við afnot föður hans af einkaþotum.

Þá var tilkynnt að Filippus konungur afsalaði sér öllum eignum, hlutabréfum eða öðrum fjárfestingum sem væru annaðhvort ólögmætar eða samræmdust ekki heiðri og sæmd konungsfjölskyldunnar.

Jóhann Karl varð konungur árið 1975 eftir að Francisco Franco einræðisherra andaðist. Hann er talinn hafa átt ríkan þátt í að lýðræði festi rætur á Spáni. Sat Jóhann Karl við völd í 39 ár eða þar til í júní 2014 þegar krúnan gekk til Filippusar, sonar hans.

Jóhann Karl hætti að koma fram opinberlega í fyrra þegar fréttir tóku að birtast um hneykslismál tengd einkalífi hans. Hann hefur verið sviptur eftirlaunum.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …