Home / Fréttir / Spáir gagnsókn Úkraínuhers í seinni hluta maí

Spáir gagnsókn Úkraínuhers í seinni hluta maí

Liður í undirbúningi gagnsóknarinnar er að dreifa athygli óvinarins með skemmdarverkum. Hér sést reykjarsúla af einu slíku yfir Krímskaga.

Claus Mathiesen, lektor við háskóla danska hersins, Forsvarsakademiet, spáir því í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, að gagnsókn Úkraínuhers hefjist seinni hlutann í maí. Margt bendi til þess að nú sé lögð lokahönd á undirbúning sóknarinnar. Á hinn bóginn sé óvíst hvar Úkraínumenn sæki fram.

Jevgeníj Prigozjin, leiðtogi Wagner-málaliðanna, hefur undanfarna daga sagt gagnsóknina hafna. Jevhen Belytskíj, sem Rússar gerðu að héraðsstjóra í Zaporizjzja-héraði, sagði föstudaginn 5. maí að gagnsóknin gæti hafist „næstu daga, ef ekki klukkustundir“.

Fyrir tæpum tveimur vikum sagði Oleksij Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, að brátt lyki undirbúningi undir gagnsóknina.

Aðfaranótt sunnudags 7. maí voru gerðar nokkrar drónaárásir á Krímskaga þar sem Rússar ráða. Opinberlega hafa Úkraínumenn ekki gengist við árásunum en hvað eftir annað hefur verið skotið á skotmörk þar.

Þriðjudaginn 3. maí var ráðist á olíubirgðastöð skammt frá brúnni til Krímskaga í rússneska Krasnodar-héraði. Áður hafði verið ráðist á slíka stöð í höfninni í Sevastopol á Krímskaga.

Þá er enn óupplýst hvort drónar hafi verið sendir til árása á Kremlarkastala eins og Rússar segja að Úkraínumenn hafi gert að fyrirlagi Bandaríkjamanna. Úkraínustjórn segist ekki hafa átt neinn hlut að því atviki.

Í samtali við DR sunnudaginn 7. maí segir Claus Mathiesen að öll þessi atvik, hvort sem Úkraínumenn standi að baki þeim eða ekki, séu til þess fallin að rugla Rússa og dreifa athygli þeirra. Aðgerðum af þessu tagi hafi fjölgað undanfarið.

„Það er alls ekki ljóst hvar Úkraínumenn munu hefja gagnsóknina. Á hinn bóginn er ekki vafi á að undirbúningur undir hana er þegar hafinn á ýmsum sviðum,“ segir Claus Mathiesen.

Þar bendir hann á tilvikin sem hér hafa verið nefnd en einnig smærri árásir við víglínuna þar sem einingar í her Úkraínu hafi á ýmsum stöðum gert árásir til að átta sig á viðnámsafli andstæðingsins og styrk hans.

„Miklu skiptir fyrir Úkraínumenn að sjá hvort þeir geti knúið Rússa til að dreifa liðsafla sínum sem mest. Ég tel að við sjáum um þessar mundir nokkur merki um tilraunir til þess áður en sótt er fram gegn þeim.

Við erum ef til vill vitni að aðdragandanum nú þegar reynt er að eyðileggja birgðaflutningaleiðir Rússa og jafnframt skapa óvissu um raunverulegan árásarstað,“ segir Claus Mathiesen við DR.

Hann bendir á að Rússar hafi nú haft heilan vetur til styrkja varnarlínu sína. Staðan sé ekki eins og í fyrra þegar Úkraínuher náði borgunum Kherson og Kharkiv með skyndisóknum. Nú sé erfiðara að koma Rússum á óvart en í fyrra.

„Þetta er liður í tafli. Að verulegu leyti snýst þetta um að koma óvininum á óvart – að svo miklu leyti sem þess er kostur – og stuðla að því að Rússar dreifi liðsafla sínum svo að þeir geti nýtt hann til varna á einum stað,“ segir danski lektorinn.

Fyrir utan birgðir, óvissustigið og viðbragðið er einnig nauðsynlegt að ráða yfir þolinmæði og hún ræður miklu að mati Mathiesens.

„Ég hef áður látið orð falla um að þunginn í gagnsókninni verði í seinni hluta maí. Þar ræður veður, færð og einnig þolinmæði, svo lengi hefur verið talað um gagnsókn Úkraínumanna að margir vilja að nú fari eitthvað að gerast.

Þá fer þetta einnig saman við að hergögnin sem stórfylkin níu sem Úkraínumenn segjast ætla að beita í gagnsókninni eru að komast á sinn stað og þá er unnt að sækja fram af fullu afli. Þess vegna er þessi tímasetning í öllu tilliti mjög sennileg,“ segir Claus Mathiesen

 

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …