Home / Fréttir / Spænsk stjórnvöld kalla rússneska sendiherrann á teppið

Spænsk stjórnvöld kalla rússneska sendiherrann á teppið

Margarita Robles, varnarmálaráðherra Spánar.

Spænsk stjórnvöld brugðust harkalega við þegar rússneska sendiráðið í Madrid birti myndskeið sem átti að sýna spænska hermenn í skotgröf í Úkraínu.

Júrí Klimensko, sendiherra Rússa í Madrid, var kallaður á teppið fimmtudaginn 27. apríl í spænska utanríkisráðuneytinu og krafinn skýringa á þessu tiltæki.  Jafnframt mótmælti utanríkisráðuneytið myndskeiðinu harðlega og sagði það tilbúning.

Vegna harðra viðbragða miðvikudaginn 26. apríl hafði sendiráðið strax að kvöldi þess dags fjarlægt myndskeiðið af vefsíðu sinni.

Í spænska blaðinu El País sagði að með myndskeiðinu sem sýndi spænskumælandi menn í herklæðum í skotgröf hefði verið ætlunin að koma þeim boðskap á framfæri að spænskir hermenn tækju þátt í átökunum í Úkraínu.

Margarita Robles, varnarmálaráðherra Spánar, var ómyrk í máli þegar hún gagnrýndi myndskeiðið. Hún sagði að með þessum upplýsingafölsunum reyndu Rússar að spilla samstöðu þjóðanna innan ESB og NATO.

Hún lagði áherslu á að engir spænskir hermenn eða hermenn annarra NATO-landa tækju þátt í stríðinu í Úkraínu.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …