
Háskólaprófessorinn Allan Lichtman sem skapaði sér sérstöðu með því að spá Donald Trump sigri í bandarísku forsetakosningunum spáir því nú að forsetinn verði settur af, líklega innan eins árs.
„Rússneskt Demóklesarsverð hangir í örþunnum þræði yfir höfði Bandaríkjaforseta. Þegar sverðið fellur verða það repúblíkanar sjálfir – eins og á tíma Nixons – sem telja sig að líkindum knúna til að hefja aðgerðir til að koma honum frá,“ segir Allan Lichtman í grein í tímaritinu Time undir fyrirsögninni: Að lokinni þessari viku er Trump miklu nær því að verða hrakinn á brott.
Í breska götublaðinu, Daily Star, kveður hann fastar að orði og segir „líklegt að þetta gerist strax næsta vor eða þegar repúblíkanar komast á þá skoðun að Trump ógni endurkjöri þeirra“ í þingkosningunum haustið 2018.
Rök sín sækir Lichtman til ákæranna sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari, kynnti mánudaginn 30. október gegn tveimur háttsettum mönnum í kosningabaráttu Trump, þar á meðal Paul Manafort kosningastjóra, í tengslum við rannsóknina á hugsanlegum tengslum Trumps og Rússa í tilraunum til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar.
Mesta sprengiefnið er þó talið felast í upplýsingum sem rannsóknarmenn Muellers hafa fengið frá ungum, fyrrverandi utanríkismálaráðgjafa Trumps, George Papadopoulos. Lichtman segir:
„Þeir sem efast um brottrekstur [forsetans] sjá ekki skóginn fyrir trjám. Nú þegar liggja fyrir athyglisverðar uppljóstranir í ákærum sem Mueller hefur lagt fyrir alríkisdómstóla á grundvelli aðeins hluta af upplýsingum sem fengist hafa í hrossakaupum við Papadoupoulos.
Forystumenn í kosningabaráttunni með aðgang að Trump hafa að minnsta kosti nálgast leynilegt samstarf við Rússana af opnum huga.“
Lichtman bendir á að ákæruskjölin sanni að Rússar hafi brotist inn í tölvupósthólf demókrata til að breiða úr „óhróður“ um Hillary Clinton og aðstoða Trump.
Papadopoulos var nýráðinn til starfa og hóf strax að rækta samband við Rússa sem höfðu tengsl við Kremlverja í þeim tilgangi að koma á fundi milli Trumps og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Þegar Papadopoulos sendi tölvubréf í þessa veru til Sams Clovis, háttsetts manns í kosningabaráttu Trumps, kviknuðu engin viðvörunarljós. Clovis svaraði þvert á móti að hann mundi „fara með málið áfram“ og hann hrósaði Papadopoulos fyrir „vel unnið starf“.
Papadopoulos sagði einnig frá fundi sínum með Trump frá 31. mars 2016. Til er mynd af fundinum þar sem Papadopoulos situr dálítið frá Trump.
Lichtman segir þetta „beina sönnun“ um að „Trump vissi um það sem gerðist“.
Í apríl 2016 sögðu rússneskir heimildarmenn Papadopoulos honum að „þeir [Rússar] ættu óhróður um hana [Hillary Clinton]“ sem finna mætti í „þúsundum tölvubréfa“. Þetta gerðist áður en greint var frá því opinberlega að brotist hefði verið inn í tölvukerfi demókrata.
Papadopoulos gaf Manafort skýrslu og 21. maí 2016 framsendi hann tölvubréf Papadopoulos til helsta aðstoðarmanns síns, Ricks Gates, með orðunum: „Einhver verður að tilkynna að DT fer ekki í þessi ferðalög. Það verður að vera einhver neðar í goggunarröð baráttunnar svo að ekki séu send nein skilaboð.“
Í ágúst 2016 ákvað Clovis að fela Papadopoulos sjálfum að fara í þessa ferð hefði hann tók á því. Ákæruskjölin sýna að ferðin var aldrei farin.
Trump hélt að morgni föstudags 3. nóvember 2017 í 12 daga ferð til Asíuríkja. Rétt fyrir brottför sína sagðist hann ekki „muna mikið“ um „ómerkilegan fund“ í mars 2016.
Hann hefur einnig dregið úr gildi upplýsinganna frá Papadopoulos með því að segja: „Fáir þekktu unga sjálfboðaliðann að nafni George sem var lágt settur og hefur þegar sýnt að hann er lygari.“
Í símtali við The New York Times fyrir fáeinum dögum lagði Trump auk þess áherslu á þetta: „Það er ekki verið að rannsaka mig eins og þið vitið.“
Lichtman spáir því að brátt verði þrýst á forsetann af meiri þunga:
„Við sjáum aðeins toppinn af ísjaka Muellers. Nýjar ákærur og ef til vill fleiri vitni sem skipta um lið verða örugglega hluti af miskunnarlausri rannsókn á Rússatengslum Trumps og einnig ákærum um að forsetinn hafi hindrað framgang réttvísinnar.“
Prófessorinn segir að telji repúblíkanar sig ekki knúna til að breyta gangi mála „mun Trump, sem nú þegar nýtur sögulegra mikilla óvinsælda, draga þá niður með sér í þingkosningunum 2018“.
Heimild: Jyllands-Posten