Home / Fréttir / Spáð í ESB-toppembætti – spáð auðveldu vali

Spáð í ESB-toppembætti – spáð auðveldu vali

António Costa, Ursula von der Leyen.
Neðri röð: Roberta Metsola , Kaja Kallas.

Leiðtogaráð ESB kemur saman til kvöldverðar í Brussel mánudaginn 17. júní til að ráða ráðum sínum á óformlegan hátt um skiptingu toppembætta ESB næstu fimm árin í ljósi úrslita ESB-þingkosninganna 9. júní.

Á vefsíðunni Politico segir miðvikudaginn 12. júní að þeir sem hafi búist við flóknum og langvinnum samningaviðræðum um toppstöðurnar innan ESB verði að líkindum fyrir vonbrigðum, það liggi nú þegar í loftinu hver niðurstaðan verði:

Ursula von der Leyen haldi áfram sem forseti framkvæmdastjórnar ESB, António Costa, fyrrv. forsætisráðherra Portúgals, verði forseti leiðtogaráðsins, Roberta Metsola frá Möltu verði áfram forseti ESB-þingsins og Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, verði utanríkis- og öryggismálastjóri.

Politico segir að átta ónafngreindir ESB-embættismenn segi að þessi nöfn verði páruð á servíettur 17. júní og síðan verði formlega gengið frá samkomulaginu á fundi leiðtogaráðsins 27. og 28. júní.

Vonir um að þessi tímamörk haldi eru reistar á því að Emmanuel Macron Frakklandsforseti gefi sér ekki tíma til að tefja málið vegna anna við þingkosningarnar sem hann hefur boðað í Frakklandi 30. júní.

Staða franskra frjálslyndra og þar með frjálslynda þingflokksins á ESB-þinginu veiktist mjög vegna þess hve Macron tapaði illa í kosningunum 9. júní. Frakklandsforseti má sín því ekki eins mikils og áður í samningaviðræðum um skipan í toppsæti ESB. Fyrir kosningarnar 9. júní töldu margir í Brussel að Macron ætlaði að bregða fæti fyrir von der Leyen.

Í Brussel er það ríkjandi skoðun að ekki verði hróflað við Ursulu von der Leyen, hún hafi verið í kjöri sem oddviti mið-hægri EPP-flokksins, hann sé stærsti þingflokkurinn með 189 þingmenn (+13 frá 2019).

Sósíalistar eru annar stærsti þingflokkurinn og vilja þeir forseta leiðtogaráðsins. António Costa hefur verið nefndur til leiks af mið-hægrimanninum Luis Montenegro, arftaka hans sem forsætisráðherra Portúgals. Sagt er að tillagan sé ekki fram komin nema vegna þess að Montenegro telji hana eigi góðan hljómgrunn. Vandinn varðandi Costa sé helst sá að hann varð að segja af sér sem forsætisráðherra í nóvember 2023 vegna þess að við rannsókn lögreglu á óupplýstu, víðtæku fyrirgreiðslumáli hafi fallið á hann grunur. Átta mánuðum síðar er málið enn hjá lögreglunni án þess að frekari upplýsingar fáist um það.

Í Brussel tala menn vel um Costa, hann hafi átt góð samskipti við von der Leyen og Macron líki vel að þeir geti rætt gáfulega saman á frönsku.

Innan portúgalska réttarvörslukerfisins hreyfa menn sig á hraða snigilsins og af hálfu þeirra sem telja sig hafa betri frambjóðanda en Costa kann að vera beðið færis. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, hefur lengi verið umtöluð í Brussel vegna þessa embættis.

Mesta óvissan er sögð ríkja um hver verði næsti utanríkis- og öryggismálastjóri ESB. Politico segir að fjórir heimildarmenn telji að frjálslynda Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, hafi augastað á embættinu.

EPP-þingmaðurinn Roberta Metsola hefur gegnt embætti forseta ESB-þingsins síðari hluta kjörtímabilsins frá 2019. Talið er víst að hún verði áfram forseti fyrri hluta kjörtímabilsins sem nú hefst. Þingið sjálft ákveður þetta en ekki leiðtogaráð ESB.

Allt er þetta sagt með þeim fyrirvara að í viðræðum af þessu tagi geti allt gerst og ekkert sé öruggt fyrr en allt sé fallið í ljúfa löð.

Til að ná kjöri sem forseti framkvæmdastjórnarinnar þarf frambjóðandinn 361 atkvæði á ESB-þinginu. EPP, sósíalistar og frjálslyndir ráða nú yfir 400 atkvæðum þar. Sérfróðir innanbúðarmenn segja að minnst 10% af þessum 400 kynnu að láta hjá líða að kjósa von der Leyen og hugsanlega svipta hana meirihlutanum.

Heimild: Politico

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …