Home / Fréttir / Spáð í áhrif hernaðarsamstarfs Rússlands og Kína

Spáð í áhrif hernaðarsamstarfs Rússlands og Kína

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping Kínaforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping Kínaforseti.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Fyrir nokkru var sagt frá því hér á vardberg.is að nú í september yrði umfangsmikil rússnesk heræfing, svokölluð Vostok-2018 (Vostok þýðir austur á rússnesku), haldin í austur­hluta landsins.  Umfang hennar sést af því að um 300 þúsund rúss­neskir hermenn taka þátt í henni sem er hvorki meira né minna en þriðjungur herafla land­sins.  Þess ber reyndar að geta að samkvæmt tímaritinu Popular Mechanics ber að taka opinberum rússneskum tölum um stærð heræfinga með varúð.  Í æfingunni verða einnig um 1000 flugvélar af ýmsum gerðum, mörg þúsund skriðdrekar og önnur svipuð farartæki auk flotaeininga.  Rússar buðu Kínverjum og Mongólum að taka þátt í æfingunni og senda Kínverjar til leiks um 3.500 hermenn og nokkuð af ýmiskonar hertækjum  Liðsafli Mongóla er óverulegur.

Að Rússland og Kína standi saman að heræfingu þarf ekki að koma mjög á óvart þegar haft er í huga að ríkin tvö hafa um margt svipaða sýn á alþjóðakerfið.  Það er að minnsta kosti mat tímaritsins The Economist en hér verður vísað til þess.  Þannig leggja bæði löndin áherslu á að hagsmunir ríkja séu rétthærri hagsmunum einstaklinga, þau stefna að því leynt og ljóst að grafa undan hagsmunabandalögum þar sem Bandaríkjamenn eru í forsvari, þess í stað vilja þau alþjóðakerfi þar sem þau geta tryggt hagsmuni sína með stjórn á þeim ríkjum sem þau telja tilheyra sínu yfirráðasvæði.  Þessi sýn er á skjön við stefnu Vesturveldanna og felur því aukin samvinna Kínverja og Rússa, sérstaklega á hernaðarsviðinu, í sér vondar fréttir fyrir þau enda eru löndin með henni að grafa undan stefnu Nixons og Kissingers sem tókst á áttunda áratugnum að stía þessum tveimur einræðisríkjum í sundur.

Vesturlönd þurfa þó að gæta þess að ana ekki út í einhverjar vanhugsaðar aðgerðir eins og að aflétta viðskiptaþvingunum á Rússa, líkt og þeir eru greinilega að ýta undir með því að bjóða Kínverjum til Vostok-2018, enda standa ýmsar hindranir í veginum fyrir því að þjóðirnar tvær myndi bandalag.  Þannig er t.d. staða þeirra á alþjóðavettvangi ólík.  Kína er stórveldi sem er að auka áhrif sín en það hallar undan fæti hjá Rússum.  Þetta getur valdið togstreitu í samskiptum ríkjanna.  Samgönguverkefni Kínverja undir heitinu Belti og brautir nær m.a. til svæða sem Rússar hafa talið áhrifasvæði sitt, framgangur verkefnisins gæti valdið illindum milli ríkjanna.  Annað atriði sem gæti valdið ólgu í samskiptum þeirra er að Kínverjar eru ósáttir við hvernig Rússar hafa brotið alþjóðareglur á undanförnum árum.  Kínverjar vita líka að Rússar hafa meiri áhuga á samskiptum við Vesturlönd, þar sem þeir geyma mikið af fjármagni og þar sem margir þeirra búa, heldur en við Kínverja.  Þetta kemur ekki síst til af því að fyrir ekki svo löngu, og jafnvel enn þann dag í dag, voru Rússar hræddir um að Kínverjar myndu vilja sölsa undir sig stóran hluta af austurhluta Rússlands, svæði sem býr yfir miklum náttúruauðlindum en fáir Rússar byggja.  Þannig má ekki gleyma því líkt og kemur fram í tímaritinu The National Interest að Vostok æfingarnar voru upphaflega hugsaðar til þess að undirbúa styrjöld við Kína

Kínverskir og rússneskir hermenn heilsast.
Kínverskir og rússneskir hermenn heilsast.

Það væri hins vegar varasamt fyrir Vesturlönd að treysta á að þessir þættir komi í veg fyrir að ríkjunum tveimur takist í sameiningu að grafa undan hagsmunum þeirra.  Hættan á því er sérstaklega mikil um þessar mundir þar sem forysturíkið í vestrænni samvinnu, Bandaríkin, sinnir því hlutverki lítið og í raun virðist forseti landsins hafa það sérstaklega á stefnuskrá sinni að spilla samstarfi við vinaþjóðir og veikja bandalög sem Bandaríkin eru aðilar að.  Þetta á ekki síst við í Asíu, sem er svið Vostok æfingarinnar, þar sem bæði Suður – Kórea og Japan eru uggandi um samstarf sitt við Bandaríkin.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …