Home / Fréttir / Sótt að rússneska flotanum á Krímskaga

Sótt að rússneska flotanum á Krímskaga

Novostjerkassk landgönguskipið.

Af hálfu sjóhers Úkraínu er fullyrt að Rússar hafi orðið fyrir „alvarlegu höggi“ þegar sjóhernum tókst að eyðileggja rússneskt landgönguskip á Krímskaga þriðjudaginn 26. desember.

Dmytro Pletenstjuk, talsmaður sjóhersins, sagði við Úkraínudeild fréttamiðilisins RFE/RL miðvikudaginn 27. desember að tjónið sem var unnið að Novostjerkassk landgönguskipinu í höfninni í Feodosiu á Krímskaga 26. desember þrengi stöðu Rússa umtalsvert.

Pletenstjuk fullyrðir að rússneski herinn geti um þessar mundir ekki notað Krímbrúna sem er helsta flutningaleiðin frá rússneska meginlandinu til Krímskaga.

Rússneska varnarmálaráðuneytið viðurkennir að Novostjerkassk hafi orðið fyrir tjóni og segir talsmaður sjóhers Úkraínu að þess vegna hafi Rússar aðeins afnot af ferjum til að flytja hergögn og vistir til Krímskaga. Það muni líða langur tími þar til stór rússnesk landgönguskip sjáist aftur á Svartahafi.

Júríj Ignat, talsmaður flughers Úkraínu, sagði að árásin 26. desember hefði orðið til þess að mikil sprengja varð í skotfærum um borð í rússneska skipinu. Það hefði verið notað til að flytja tæki, vopn og hermenn til Feodosiu og annarra hertekinna hafna Rússa á Krímskaga.

Fyrir utan Novostjerkassk var kennsluskipið UTS-150 einnig eyðilagt í árasinni 26. desember. Nú er talið að Rússar eigi aðeins sex stór herskip á Svartahafi og ekkert á Azovhafi.

Sagt er að tvö rússnesk skip hafi yfirgefið höfnina í Feodosiu eftir árásina 26. desember. Óljóst er hvaða skip það voru, líklega herskip og herbátur úr rússneska Svartahafsflotanum.

Pletenstjuk sagði að með árásinni á Novostjerkassk hefði her Úkraínu tekist að gera sjö stór rússnesk herskip óvirk.

Grant Shapps, varnarmálaráðherra Breta, sagði eftir árásina 26. desember að fimmtungur af Svartahafsflota Rússa hefði verið eyðilagður á undanförnum fjórum mánuðum. „Yfirburðum Rússa á Svartahafi er nú ógnað,“ sagði ráðherrann.

Verst varð tjón rússneska herflotans í apríl 2022 þegar flaggskipi hans á Svartahafi, stýriflauga-beitiskipinu Moskva, var sökkt fyrir sunnan Odesa, höfn Úkraínu.

Krímbrúin var tekin í notkun árið 2018 til að festa ólögmæta innlimun Krímskaga í Rússland árið 2014 í sessi. Brúin hefur verið skotmark Úkraínuhers frá því innrás Rússa hófst í febrúar 2022.

Mikið tjón var unnið á brúnni í október 2022 þegar flutningabíll sprakk þar í loft upp. Þá varð að loka umferð bifreiða og járnbrautarlesta um brúna. Í júlí 2023 var tundurskeytadróna skotið að brúnni og truflaði sprenging af hans völdum umferð um hana. Öðrum dróna var skotið að brúnni af hafi 21. desember 2023 og var umferð um brúna þá lokað.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …