Home / Fréttir / Sótt að hluteysisstefnu Svisslendinga

Sótt að hluteysisstefnu Svisslendinga

Svissneska hernum fagnað á ráðhústorginu í Basel.

Þrýstingur eykst á stjórnvöld í Sviss frá ríkjum sem keypt hafa svissnesk vopn og vilja fá leyfi til að senda þau til Úkraínu. Svissnesk yfirvöld heimila aðeins útflutning á vopnum skuldbindi kaupandinn sig til að afhenda þau ekki þriðja aðila án heimildar frá Sviss. Sömu reglur gilda varðandi þýsku Leopard 2 skriðdrekana sem þýska ríkisstjórnin hefur nú samþykkt að sendir verði til Úkraínu.

Eins og málum er nú háttað geta til dæmis Danir ekki sent eigin vopn smíðuð í Sviss til átakalands nema með grænu ljósi frá Sviss.

Á vefsíðunni Berlingske.dk segir blaðamaðurinn Peter Suppli Benson að það kosti Svisslendinga „gífurlegt uppgjör við stjórnarskrá sína og sjálfsmynd“ ef þeir samþykki að heimila útflutning á skotfærum og brynvörðum ökutækjum til lands í stríði:

„Raunveruleikinn blasir við Svisslendingum. Þeir eru skammaðir fyrir að vilja ekki aðstoða Úkraínumenn á sama tíma og Rússar koma fé sínu fyrir í Sviss. Og síðan blasir við sú viðskiptalega staðreynd að það verður erfitt fyrir stóra svissneska vopnaframleiðendur að fá framtíðarsamninga um vopnasölu við önnur ríki vegna þess að þar með verði ríkin að gangast undir ströng svissnesk skilyrði.“

Í fyrra ráku Danir sig á þessi skilyrði Svisslendinga þegar þeir ætluðu að gefa 20 gamla brynvarða vagna af Piranha III gerð, smíðaða í Sviss, til Úkraínu. Svisslendingar lögðu blátt bann við að vagnarnir færu þangað.

Svissneska þingið ræðir nú hvort breyta eigi þessum reglum. Ekki er talið útilokað að það verði gert.

„Við viljum vera hlutlausir en við erum hluti af vestræna heiminum,“ sagði Thierry Burkart, leiðtogi mið-hægri FDP-flokksins við Sky News í Bretlandi.

Flokkurinn hefur lagt fram tillögu í ríkisstjórninni um að kaupendum svissneskra vopna verði heimilað að framsenda þau til ríkja þar sem svipuð lýðræðisleg gildi eru í heiðri höfð.

Svisslendingar hafa aðhyllst stranga hlutleysisstefnu. Þeir héldu sig bæði utan fyrstu og annarrar heimsstyrjaldarinnar. Í stefnunni felst meðal annars að þeir afhenda ekki vopn til átakasvæða.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …