
Sajid Javid, innanríkisráðherra Breta, segir að ekki séu „nein auðveld svör“ við spurningum um hvernig grípa skuli á vandanum vegna flótta- og farandfólks á Ermarsundi. Þetta sé vegna þess hve margir þættir málsins séu „ekki á valdi“ stjórnvalda.
Javid gerði hlé á jólaleyfi sínu til að takast á við vaxandi ólöglegan straum fólks frá Frakklandi yfir Ermarsund til Englands. Ráðherrann sagðist ekki ætla að „standa til hliðar“ og leyfa „ófyrirleitnum“ glæpamönnum að nýta sér neyð farandfólks og stofna lífi þess í „alvarlega hættu“.
Þetta kemur fram í grein í The Telegraph sunnudaginn 30. desember eftir að Javid ræddi við starfsbróður sinn í Frakklandi. Hann segir að eftirlit verði aukið, gerðar verði ráðstafanir til að ná til glæpahópa og hindra þá í lögbrotum sínum.
Javid sætti gagnrýni þingmanna Íhaldsflokksins fyrir að láta þróun mála á Ermarsundi ekki til sín taka. Hann var í safari-ferð í Suður-Afríku í jólaleyfi með fjölskyldu sinni en sneri heim eftir þrjá og hálfan dag.
Stuðningsmenn Javids segja að því hafi verið lekið úr forsætisráðuneytinu að hann væri fjarverandi. Þetta hafi verið gert af illum huga af stuðningsmönnum Theresu May sem vildu koma höggi á Javid vegna ágreinings hans við May um Brexit og orðróms um að hann vildi koma henni frá til að hreppa sjálfur leiðtogasætið í flokknum. Af hálfu forsætisráðuneytisins er öllum slíkum sögusögnum hafnað sem ósönnum.
Sunnudaginn 30. desember fundust sex íranskir karlmenn á strönd Kent. Þeir höfðu farið yfir Ermarsund á gúmbát. Með þeim hefur 100 manns annaðhvort verið bjargað eða þeir hafa náð landi á Englandi frá því á aðfangadagskvöld.
Javid vildi í fyrstu ekki verða við óskum íhaldsþingmanna sem vildu að bresk eftirlitsskip verði kölluð frá Miðjarðarhafi til starfa á Ermarsundi. Hann taldi að skipin kynnu að virka eins og „segull“ á þá sem vildu láta á það reyna að komast ólöglega yfir sundið, tilvist skipanna þar ykju líkur á björgun bátafólks færi eitthvað úrskeiðis hjá því.
Að morgni nýársdags, þriðjudags 1. janúar, birti The Telegraph frétt þess efnis að innanríkisráðherrann hefði skipt um skoðun og nú yrðu tvö bresk eftirlitsskip á Miðjarðarhafi kölluð til eftirlits á Ermarsundi.
Ráðherrann telur að óstöðugleiki í Mið-Austurlöndum ýti á eftir fólki sem leiti til Bretlands, þá komi skipulögð glæpastarfsemi við sögu, breytingar á ferðaleiðum og öflugri öryggisgæsla í frönsku hafnarborginni Calais sem haldi þeim þaðan sem annars hefðu reynt að laumast um borð í flutningabíla eða lestir.
Charlie Elphicke, þingmaður Íhaldsflokksins í Dover, segir að aðgerðirnar sem Javid boðar „dugi ekki“ til að takast á við vandann. Hann vill fá tvö bresk eftirlitsskip frá Miðjarðarhafi til starfa í Ermarsundi.
Franski þingmaðurinn Pierre-Henri Dumont frá Calais sagði að smyglarar færðu sér í nyt „óvissuna vegna Brexit“ til að „breiða út falsfréttir“ meðal farandfólks um að nú væri rétti tíminn fyrir það til að fara yfir sundið til Englands.
Þegar ráðherrann kynnti að kallað yrði á fleiri skip til eftirlits áréttaði hann að allt yrði gert til að eyðileggja áform þeirra sem vildu reyna að komast ólöglega yfir Ermarsund.
Gagnrýnt hefur verið að eini eftirlitsbátur Breta á Ermarsundi sé meira bundinn við landfestar en á hafi úti. Annar bátanna frá Miðjarðarhafi verður strax sendur frá Gíbraltar þar sem hann er í höfn. Hinn er við störf á hafi úti og kann að dragast í nokkrar vikur að hann verði í Ermarsundi.
Javid lætur nú meta hvort hann Bretar geti hafnað umsóknum hælisleitenda á þeirri forsendu á þeir hafi þegar lagt leið sína um nokkur „örugg“ lönd áður en þeir ganga á land á Englandi. Þá sagði hann bresk yfirvöld myndu á opinberan og „leynilegan“ hátt vinn að því að brjóta upp smyglhringi í Frakklandi.
Frakkar senda eftirlitsbát til gæslu á Ermarsundi miðvikudaginni, Le Pulvier, sem á heimahöfn í Cherbourg.
Breska innanríkisráðuneytið segir að á árinu 2018 hafi 539 reynt að komast ólöglega yfir Ermarsund, 80% á síðustu þremur mánuðum ársins. Frakkar hafa stöðvað ferð um helming þessa fólks.
Flestir þeirra sem reynt hafa komast yfir Ermarsund nú í vetur eru íranskir karlmenn sem hafa greitt þúsundir evra fyrir „gulltryggða“ ferð til Bretlands.
Bresk yfirvöld segja að sumir þessara karlmanna ljúgi til um þjóðerni sitt, segist vera Íranir vegna þess að íranska ríkisstjórnin neitar að taka á móti þeim sem yfirvöld annarra landa vilja flytja aftur til Írans með úrskurði um brottvísun. Glæpamennirnir sem lofa að koma fólkinu til Bretlands gefa því ráð um hvaða rökum sé best að beita til að blekkja bresk útlendingayfirvöld.
Uppfært 1. janúar