Home / Fréttir / Sókn Úkraínuhers veldur upplausn í her Rússa

Sókn Úkraínuhers veldur upplausn í her Rússa

Eldur eftir sprengjuárás Rússa.

Bandaríski hershöfðinginn Herbert R. McMaster og fyrrverandi öryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta telur að nú blasi við heiminum upphaf upplausnar rússneska herleiðangursins í Úkraínu.

Hersveitir Úkraínumanna eru nú á hraðferð um landshluta Úkraínu sem Rússar höfðu lagt undir sig og losa þá hvern eftir annan undan oki hers Pútins. Hermenn Úkraínu og almennir borgarar segja að rússneskir hermenn taki næstum á sprett til að forða sér þegar liðssveitir Úkraínu birtast.

H. R. McMaster sagði 2. október í sjónvarpsþættinum Face the Nation á bandarísku CBS-sjónvarpsstöðinni: „Við erum nú einfaldlega vitni að algjöru rússnesku hruni í Úkraínu. Þeir hljóta að vera komnir að þolmörkum núna.“

Fyrir nokkrum dögum lögðu Úkraínumenn undir sig bæinn Lyman í norðausturhluta Úkraínu og sækja nú fram á Donbas-svæðinu þar sem aðskilnaðar- og alþýðulýðveldin Luhansk og Donetsk eru. Vladimir Pútin Rússlandsforseti lýsti Luhansk og Donetsk hluta af Rússlandi föstudaginn 30. september.

H. R. McMaster segir um stórsigur Úkraínumanna að ræða sem kunni að leiða til enn meiri landvinninga þeirra.

Samhliða þessum fréttum er Úkraínustjórn hvött til að halda sínu striki og ekki slá slöku við gagnvart Rússum, þeir geti sótt í sig veðrið næstu daga.

„Nú hleypur harka í leikinn,“ segir ónafngreindur maður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu við bandaríska fjölmiðilinn Politico. Hann segir að vissulega séu sigrar Úkraínuhers mikilvægir en þó beri að varast að líta á þá sem upphaf endalokanna.

Bandarískar njósnastofnanir segja að her Rússa hafi haldið til austurs eftir ósigurinn í Lyman og í áttina að bænum Kerminna. Lyman hafi gegnt lykilhlutverki sem birgða- og flutningamiðstöð fyrir rússneska herinn, þaðan hafi legið birgðaleiðir með vopn og búnað til borganna Kharkiv í norðri og Kherson í suðri. Þess vegna sé taka Lyman gífurlega strategískur sigur fyrir Úkraínumenn.

Nú er talið líklegt að Rússar ætli að nota Kreminna sem nýja miðstöð þegar þeir safna liði að nýju til að verjast sókn Úkraínuhers. Samhliða því sem varnir Kerminna eru styrktar er jarðsprengjum raðað umhverfis bæinn.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …