Home / Fréttir / Sókn Kínverja á norðurslóðir vekur ágreining sérfræðinga í Noregi

Sókn Kínverja á norðurslóðir vekur ágreining sérfræðinga í Noregi

 

Kínverski ísbrjóturinn Xuelong. Hann kom til Íslands um árið áður en hann sigldi þvert yfir norðurpólinn.
Kínverski ísbrjóturinn Xuelong. Hann kom til Íslands um árið áður en hann sigldi þvert yfir norðurpólinn.

Deilt er um það á síðum norska blaðsins Aftenposten hvað vakir fyrir Kínverjum á Norður-Íshafi og norðurslóðum almennt. Blaðið birti mánudaginn 17. október viðtal við Jack Midgley, bandarískan sérfræðing í öryggismálum, sem sagði Kínverja vilja ná undir sig olíu- gas- og sjávarauðlindum í Norður-Íshafi. Miðvikudaginn 19. október drógu norskir sérfræðingar réttmæti spádóma Bandaríkjamannsins um að Kínverjar mundu ógna Noregi á borð við Rússa í efa.

„Rússar skapa viðvarandi ógn við Norðmenn á norðurslóðum. Kínverjar verða í sporum þeirra þegar fram líða stundir,“ segir Midgley sem var nýlega í Noregi og hitti meðal annars Haakon Bruun-Hanssen, yfirmann norska hersins.

Blaðamaðurinn Sveinung Berg Bentzröd segir að innan fárra vikna hefji Kínverjar smíði fyrsta kjarnorkuknúna ísbrjóts síns. Þriðji hver kafbátur sem smíðaður sé í heiminum sé kínverskur, margir þeirra kjarnorkuknúnir og nógu stórir til að sigla um Norður-Íshaf.

Minnt er á að í öðrum heimshluta hafi Kínverjar styrkt stöðu sína til mikilla muna til að hafa vald yfir land- og hafsvæðum og nýtingu auðlinda. Þeir vilji skapa sér svipaða aðstöðu á norðurslóðum og á þann hátt verði þeir nágrannar Noregs, segir varnarmálasérfræðingurinn.

„Sjáðu hvað gerist á Suður-Kínahafi og í Austur-Afríku þar sem Kínverjar opna herstöðvar og auka siglingar sínar, einnig siglingar herskipa, þetta eru dæmi um það sem á eftir að gerast á Norður-Íshafi,“ segir Midgley.

„Í Norður-Íshafi snýst þetta um olíu, gas og sjávarauðlindir fyrir utan að geta siglt um allt hafsvæðið allan ársins hring. Hvernig bregðast aðrar þjóðir við ef Kínverjar taka til við að halda úti herskipum á þessum slóðum?“ spyr Midgley.

Jack Midgley starfar nú á vegum Deloitte í Tokyo og kortleggur hernaðarleg umsvif hvarvetna í heiminum. Verkefnið heitir Global Defense Outlook og þar er farið í saumana á útgjöldum einstakra ríkja til varnarmála og lagt mat á hernaðarmátt þeirra. Midgley er útskrifaður frá West Point-herháskólanum og var meðal aðalráðgjafa Bandaríkjastjórnar vegna Afganistans.

Hann segir að það sem hann lýsir nú snerti ekki brýn úrlausnarefni á þessu ári. Þessi mál muni hins vegar bera hátt síðar vegna viðskipta og stækkunar kínverska flotans.

Mikilvæg ástæða fyrir því að Deloitte beinir meiri athygli en áður að strategískum hagsmunum Noregs gagnvart Kína er að viðskipti Kínverja og Norðmanna hafa aukist um 800% undanfarin ár.

Jack Midgley telur að aukin viðskipta- og efnahagsleg umsvif Kínverja á norðurslóðum kalli á aukin umsvif kínverska herflotans.

„Þeir kunna að hefja flotaæfingar, reglulegar eftirlitsferðir eða flotaheimsóknir. Kínverjar hafa áform um að halda flota sínum úti um heim allan. Þeir segja að þessi áform nái einnig til norðurslóða,“ segir Midgley.

Blaðamaðurinn segir að þarna lýsi hann nýju ástandi og spyr hvort einhver hafi sofnað í tímanum. Midgley segir að svo sé ekki heldur hafi athyglin beinst að Rússum. Þá spyr blaðamaðurinn hvers vegna Kínverjar smíði stóra kafbáta.

„Af því að með kafbátum má gera marga hluti, stunda njósnir, leggja tundurdufl, ráðast á skip eða aðra kafbáta, mjög erfitt er að finna þá. Þeir skapa kínverska flotanum fjölhæfni sem ekki er unnt að ná með ofansjávar skipum.“

Aftenposten kynnti kínverska sendiráðinu í Osló viðvaranir Midgleys og Sun Hu, pólitískur talsmaður þess, svaraði í tölvubréfi:

„Að ala á hræðslu með þeirri skoðun að Kínverjar verði ógn í Norður-Íshafi er aðeins til þess fallið að skapa vandræði. Tilgangurinn með því að vísa til ástandsins á Suður-Kínahafi og segja eitthvað svipað muni gerast á Norður-Íshafi er aðeins að afvegaleiða fólk, skapa vanda og ýta undir ágreining.

Kínverjar styðja þá skipan mála á Norður-Íshafi sem er reist á gildandi alþjóðalögum. Kínverjar munu áfram vilja auka miðlun á upplýsingum og þekkingu, gagnkvæma fræðslu og samvinnu með öðrum til að leggja grunn að Norðurheimskauti þar sem lögð er áhersla á frið, stöðugleika og traust kerfi í umhverfismálum og sjálbæra þróun.“

Í áhættumati Eftirgrennslanaþjónustu (E-þjónustu) norska hersins sem hefur verið uppfært undir heitinu Fokus 2016 segir að Kínverjar vilji láta meira að sér kveða ekki síst í alþjóðastjórnmálum þar sem þeir vilji bæði auka og beita valdi til að vernda kjarnahagsmuni sína.

Í Aftenposten er Morgen Haga Lunde, yfirmaður E-þjónustunnar, spurður hvort ekki beri að líta á verslun og vöruflutninga sem kjarnahagsmuni Kína.

„Afdráttarlaust,“ segir yfirmaðurinn. Midgley sé að fjalla um siglingaleiðina fyrir norðan Rússland – Norðausturleiðina. Lunde telur hins vegar málum þannig háttað um þessar mundir að það borgi sig ekki að flytja vörur þessa leið, hvorki til austurstrandar Bandaríkjanna né Evrópu. Leiðin sé enn of löng og ísinn sé óhagstæður og erfiður á stórum svæðum og því verði að treysta á ísbrjóta.

„Til þessa höfum við aðeins séð einn ísbrjót,

, á þessum slóðum. Kínverjar hafa hins vegar mótað sér norðurslóðastefnu og hagsmunir þeirra eru skýrir. Þeir snerta náttúruauðlindir eins og olíu, gas og fisk. Verði Norðausturleiðin opin allan ársins hring styttir hún siglingatíma um tvær vikur,“ segir Lunde.

Hann segir E-þjónustuna fylgjast með framvindu mála í Kína. Þar smíði menn nú eigið flugmóðurskip, flugvélar og kafbáta og opni herstöðvar á eyjum í Suður-Kínahafi. „Þar sem þeir hafa efnahagslegra hagsmuna að gæta hafa þeir einnig hernaðarlega hagsmuni,“ segir Haga Lunde.

Blaðamaðurinn spyr þá hvort skoðanir Midgleys séu þá réttar. Lunde telur ekki unnt að hafna þeim en Midgley sé að boða framtíðar-sviðsmynd sem fyrst verði að veruleika undir 2030. Kannski seinna.

Þá bendir blaðamaðurinn á að í tímaritinu The Diplomat sé því haldið fram að Kínverjar dulbúi ef til vill það sem raunverulega vakir fyrir þeim á norðurslóðum að baki rannsóknum og umhverfisvöktun.

Í blaðinu segi að Kínverjar skilgreini norðurslóðir sem alþjóðasvæði og breytingar þar snerti allar þjóðir og loftslagsbreytingar krefjist afskipta manna á æðstu stöðum.

Bent er á að núna haldi Kínverjar úti rannsóknarstöð í Ny Ålesund á Svalbarða og hópur Kínverja búi í Longyearbyen á Svalbarða.

„Eftir því sem ég veit stunda þeir lögmætar rannsóknir hér,“ segir Morten Haga Lunde, forstöðumaður E-þjónustunnar.

Sun Hu við kínverska sendiráðið í Osló segir að athafnir Kínverja á norðurslóðum snúist einkum um rannsóknir. Hann segir í tölvubréfi:

„Ísbrjóturinn Snjódrekinn hefur oftar en einu sinni flutt erlenda sérfræðinga til Norður-Íshafs. Aðild okkar hefur verið reist á virðingu, samvinnu og að allir hafi gagn af ástandinu.“

Í seinni greininni um Kínverja og norðurslóðir í Aftenposten segist Øystein Tunsjø, prófessor í Asíufræðum við Institutt for forsvarsstudier, Stofnun varnarrannsókna,  sannfærður um að Kínverjar verði aldrei jafnmikið áhyggjuefni fyrir Norðmenn og NATO á norðurslóðum  og Rússar séu núna.

Prófessorinn segir: „Þegar Xi Jinping vaknar á morgnana sækja Norður-Íshaf og norðurslóðir allra síðast á huga hans.“ Þarna vísar hann til forseta Kína og leiðtoga kommúnistaflokksins.

Prófessorinn hafnar niðurstöðum Midgleys með þessum orðum:

„Enginn getur tekið þær alvarlega.“

Øystein Tunsjø hefur skrifað um afstöðu Kínverja til Vesturlanda í fjölda greina og auk þess bókina Security and Profit in China’s Energy Policy. Hann segir við Aftenposten:

„Að fullyrða að Kínverjar verði álíka krefjandi og Rússar á norðurslóðum á sér engar forsendur í raunveruleikanum. Valdastaða Rússa í norðri er reist á því að þeir eru að nýju að þróa hernaðargetu til að stjórna siglingu herskipa og kaupskipa á Barentshafi og ógna siglingum langt út á Norður-Atlantshaf eins og Sovétmenn gerðu á áttunda áratugnum. Það er fast að orði kveðið þegar fræðimaður notar orðið aldrei en það á við í þessu tilviki: Kínverjar eiga aldrei eftir að verða svona krefjandi gagnvart Noregi og NATO í norðri.“

Í Aftenposten er vitnað í aðra norska sérfræðinga sem taka undir þessi orð prófessorsins. Jacob Børresen, fyrrverandi yfirmaður og sérfræðingur í norska hernum, segir við blaðið:

„Jack Midgley er ekki hlutlaus eða óháður fræðimaður. Hann er málsvari bandarískra hagsmuna og framganga Kínverja er tvímælalaust ógn við yfirburði Bandaríkjanna á höfunum. Í því felst hins vegar ekki að Kínverjar ógni norskum hagsmunum eða norsku öryggi í Norður-Íshafi.“

Tunsjø áréttar jafnframt að Kínverjar vilji láta að sér kveða á Norður-Íshafi til að nýta þar auðlindir samhliða þeim tækifærum sem kunni að gefast strategískt, efnahagslega, hernaðarlega og vísindalega á næstu árum.

„Eindregin ósk Kínverja um aðild sem áheyrnarfulltrúi að Norðurskautsráðinu sýnir að ekki vakir fyrir þeim að draga fullveldisrétt strandríkja Norður-Íshafsins í efa, þeir vilja virða þjóðaréttinn þar á meðal hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Áhuga Kínverja og aukin umsvif þeirra á svæðinu má fyrst og fremst rekja til vísindalegs áhuga sem snertir loftslagsbreytingar, viðskiptahagsmuni varðandi olíu og gas auk stjórnmálalegra og þjóðréttarlegra sjónarmiða,“ segir Tunsjø. Hann minnir á að kínverski herinn beini athygli sinni að umdeildu Suður-Kínahafi og almennri keppni við Bandaríkjamenn á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu.

Prófessorinn segist ekki trúa því að Haga Lunde telji að ógn frá Kína gagnvart Noreg geti orðið eins mikil og ógn frá Rússlandi. Kínverjar hafi ekkert ógnarvald í norðri en þeir séu hins vegar óhjákvæmilegir þátttakendur í viðleitni þeirra sem vilji efla siglingar kaupskipa á norðurslóðum og nýta auðlindir þar. Kínverski herinn hafi ekki mátt til að tryggja öryggi á leiðum kaupskipa um heim allan og í fyrirsjáanlegri framtíð muni hann ekki ráða við það verkefni.

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …