Home / Fréttir / Sögulegt samkomulag í stórþinginu um stórauknar varnir Noregs

Sögulegt samkomulag í stórþinginu um stórauknar varnir Noregs

Nefnd norska stórþingsins um varnar- og utanríkismál kynnir samkomulag sitt um 12 ára langtímaáætlun í varnarmálum, 4. júní 2024.

Norska stórþingið samþykkti einróma þriðjudaginn 4. júní langtímaáætlun í varnarmálum. Þingmenn eru meðal annars sammála um að fjárfest verði í sex nýjum kafbátum og langdrægu loftvarnakerfi á Oslóarsvæðinu.

„Ráði sjóherinn yfir sex kafbátum verður ætíð unnt að halda úti nokkrum kafbátum samstímis til eftirlits við strendur Noregs. Það verður til þess að auka fælingarmátt norska hersins og gæslu á norsku yfirráðasvæði,“ sagði formaður varnarmálanefndarinnar, Ine Eriksen Søreide, þingmaður Hægriflokksins.

Á stórþinginu náðist einnig samkomulag um að komið yrði upp langdrægu loftvarnakerfi fyrir Osló og næsta nágrenni. Áætlunin er til tólf ára.

„Þetta er mjög þéttbýlt svæði en á því eru einnig mikilvægar samfélagsstofnanir sem ber að vernda,“ sagði Søreide.

Þá verður einnig mótuð stefna um notkun dróna að sögn nefndarmanna. Stefnan taki bæði til þess hvernig drónar skuli nýttir til að auka öryggi Noregs en einnig hvernig staðið verði að vörnum gegn drónum. Bent er á að það sé ör þróun á þessu sviði og nauðsynlegt að Norðmenn séu við öllu búnir.

Helstu atriði áætlunarinnar

Hér eru nokkrar upplýsingar um langtímaáætlunina um varnarmál:

Ríkisstjórnin lagði tillöguna fyrir þingið í apríl. Þar var lagt til að verja 1.624 milljörðum NOK til varnarmála til ársins 2036.

Tillagan fól í sér 600 milljarða NOK aukningu á tíma áætlunarinnar miðað við útgjöld í fyrra. Samkomulagið í þingnefndinni gerir ráð fyrir að við þessa fjárhæð bætist 11 milljarðar NOK.

Fjárfest verður í nýju langdrægu loftvarnakerfi til að verja Østlandet og höfuðborgarsvæðið.

Í upphaflegri tillögu ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir fimm nýjum kafbátum. Stórþingið vill að kafbátarnir verði sex.

Mótuð verður heildarstefna um notkun dróna.

Ríkisstjórnin skal gefa stórþinginu árlega skýrslu um framkvæmd og stöðu áætlunarinnar.

Söguleg samstaða

Leiðtogi Verkamannaflokksins, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra, segir að samkomulagið um nýju langtímaáætlunina í varnarmálum sé „sögulegt“ og skipti miklu bæði gagnvart bandamönnum Norðmanna og „öðrum“.

Forsætisráðherrann vekur athygli á að þetta sé í fyrsta skipti sem allir flokkar á stórþinginu standi saman að baki langtímaáætlun um varnarmál.

„Þegar stríð er í Evrópu, ástandið í öryggismálum hefur versnað og Rússar eru óútreiknanlegir verðum við að leggja meira fé af mörkum í þágu sameiginlegs öryggis okkar,“ segir Støre.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …