Home / Fréttir / Sögulegar sættir milli Eþíópiu og Erítreu

Sögulegar sættir milli Eþíópiu og Erítreu

 

Abiy Ahmed.
Abiy Ahmed.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Fréttir sem berast frá Afríku eru því miður oftast neikvæðar.  Þetta á sérstaklega við um löndin fjögur sem eru á horni Afríku (e. Horn of Africa); Djíbútí, Sómalíu, Erítreu og Eþíópíu.    Þannig var á 9. áratug síðustu aldar alvarleg hungursneyð í Eþíópíu sem leiddi til þess að tónlistarmaðurinn Bob Geldof skipulagði hljómsveitina Band-Aid sem mikið var í fréttum á sínum tíma.  Áratug síðar varð síðan hungursneyð í Sómalíu og í kjölfarið var mikið fjallað um landið í fjölmiðlum aðallega þó vegna þess að þegar bandaríski herinn var sendur á vettvang til að aðstoða við hjálparstarfið voru tvær þyrlur á vegum hans skotnar niður (sú saga kallast á ensku “Black Hawk Down”).

Því er ánægjulegt að nú berast þær fréttir frá Erítreu og Eþíópíu að löndin tvö ætli að binda enda á langvarandi deilu milli ríkjanna.  Breska ríkisútvarpið hefur m.a. fjallað um málið og er þessi grein að mestu leyti byggð á umfjöllun þess.  Deila ríkjanna hefur staðið nánst allt frá því Erítrea hlaut sjálfstæði frá Eþíópíu árið 1993.  Stuttu síðar braust út styrjöld milli ríkjanna sem leiddi til dauða tuga, jafnvel hundraða, þúsunda manna.  Henni lauk árið 2000 en mikil spenna hefur ríkt milli ríkjanna allar götur síðan.  Það er að segja þangað til í apríl á þessu ári þegar Abiy Ahmed tók við stjórnartaumunum í Eþíópíu.  Hann er byrjaður að færa landið í frjálsræðisátt. Hann hefur sleppt pólitískum föngum, rekið embættismenn sem sakaðir eru um spillingu og hann vill auka frelsi í viðskiptum.

Ahmed er með doktorsgráðu í þeirri grein stjórnmálafræði sem fæst við að leiða átök til lykta (e. peace and security issues) og hann notaði þekkingu sína á þessu sviði þegar hann tilkynnti að hann vildi ná sáttum við nágranna sína í norðri.  Í framhaldinu létu stjórnvöld í Eþíópíu þau boð út ganga að þau myndu afhenda Erítreu landamærabæinn Badme sem hefur verið bitbein ríkjanna síðan árið 2000.  Þetta leiddi til þíðu í samskiptum ríkjanna og nú í byrjun júlí hittust leiðtogar þeirra og ákváðu að slíðra sverðin.

Vonast er til að friðarviðræður ríkjanna tveggja og þær umbætur sem nú eiga sér stað í Eþíópíu leiði til þess að leiðtogi Erítreu, Isais Afewerki, slaki á klónni þar í landi.  Ekki veitir af því einræðisstjórnin sem þar ræður ríkjum er svo slæm að landið er oft kallað Norður – Kórea Afríku.  Syndaskrá stjórnarinnar er löng.   Hún hefur hrakið hundruð þúsunda á vergang bæði vegna þess að efnahagsástandið er afar bágborið og vegna hrottaskapar gagnvart þegnum landsins en fulltrúar Sameinuðu þjóðanna segja að hegðun stjórnvalda jaðri við að teljast vera glæpur gegn mannkyninu.  Landsmenn hafa ekki tækifæri til að tjá skoðanir sínar í þingkosningum enda hafa engar slíkar farið fram síðan landið hlaut sjálfstæði og fjölmiðlar geta ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu enda eru þeir allir undir stjórn ríkisins.  Enn sem komið er bendir ekkert til þess að Afewerki hyggist snúa af braut einræðis og óstjórnar.  Hann þarf hins vegar að laða að erlendar fjárfestingar og fjárhagsaðstoð, nokkuð sem kann að skýra friðarvilja hans, og því er of snemmt að útiloka að breytingar verði í landinu.

Ef varanlegur friður kemst á milli ríkjanna tveggja mun það hafa víðtæk áhrif.  Minnst var á flóttamenn hér að ofan.  Mjög margir flóttamenn eru í Eþíópíu eða um 700 þúsund.  Gera má ráð fyrir að þeir hagnist á öruggara umhverfi.  Bætt staða mála á þessu svæði kann líka að hafa áhrif á flóttamannastrauminn til Evrópu en þó nokkuð mikið af þeim sem sækja um hæli þar koma frá þessum löndum.  Komist friður á milli Eþíópíu og Erítreu eru líka talsverðar líkur á að auðveldara verði að takast á við þá spillingu og óstjórn sem er til staðar í nágrannaríkjunum.

Síðast en ekki síst, a.m.k. fyrir okkur Íslendinga, þá getur þetta haft jákvæð áhrif á utanríkisviðskipti okkar.  Ísland rekur sendiráð í Úganda, sem er stutt frá Eþíópíu og Erítreu, og stefnan er sett á að auka umsvif Íslendinga í Afríku.  Það myndi auðvelda okkur þá vinnu ef meiri stöðugleiki kæmist á í norðaustanverðri álfunni.

 

 

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …