Home / Fréttir / Sögulegar breytingar í Sádí-Arabíu

Sögulegar breytingar í Sádí-Arabíu

Múhammeð bin Salman.
Múhammeð bin Salman.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

 

Nú eru aðeins rúm fjögur ár þar til næsta heimsmeistarakeppni í fótbolta verður haldin í Katar.  Góðar líkur eru á því að þá verði staða mála í Persaflóaríkjunum talsvert frábrugðin því sem nú er.  Þetta kemur aðallega til af því að nú heldur prinsinn Múhammeð bin Salman um stjórnartaumana í Sádi-Arabíu en hann hefur á stefnuskrá sinni að nútímavæða landið.  Verði honum að ósk sinni munu breytingarnar hafa áhrif langt út fyrir landsteinanna enda er Sádi-Arabía eitt öflugasta ríkið á þessu svæði.

Fjallað er um stjórnartíð Múhammeðs og breytingarnar í Flóaríkjunum í nýjasta hefti The Economist.  Þar kemur fram að breytingar eiga sér aðallega stað á tveimur sviðum þ.e. samfélagið er að færast í frjálsræðisátt og reynt er að draga úr einsleitni efnahagslífsins sem treystir að langmestu leyti á olíuvinnslu.  Ástæða þess að Sádi-Arabía er afturhaldssamt ríki er fyrst og fremst sú að opinber trúarbrögð í landinu byggja á svokölluðum Wahhabisma en fylgjendur þeirrar stefnu túlka íslamstrú með afar íhaldssömum hætti.  En nú á sem sagt að reyna að breyta þessu og hefur nú þegar verið slakað á klónni á ýmsum sviðum.  Mesta athygli hefur án efa vakið að nú í júní fengu konur í Sádi-Arabíu leyfi til að keyra bíla.

Hvað varðar efnahagsumhverfið í Sádi-Arabíu þá býr landið að afar miklum olíulindum og allt frá því á fyrri hluta síðustu aldar hefur olíuvinnsla verið hryggjarstykkið í efnahag landsins.  Nú eru hins vegar blikur á lofti í þessum geira.  Olíuverð hrundi fyrir nokkrum árum síðan og þó það hafi verið á uppleið að undanförnu þá er langt í land að það verði jafn hátt og það var á árunum 2001 – 2014.  Samkeppni á olíumarkaði hefur einnig aukist ekki síst frá Bandaríkjunum en nýungar í olíuvinnslu þar hafa stuðlað að því að landið er nú orðinn stærsti olíuframleiðandi heims.  Síðast en ekki síst þá er mannkynið hægt en örugglega að venja sig af olíunoktun.  Breytinga er því þörf eigi Sádi-Arabía að dafna í framtíðinni en þær verða ekki auðveldar.  Þannig er t.d. framleiðni í landinu lítil, fáar konur eru á vinnumarkaðinum og flókið regluverk stendur í vegi fyrir fjárfestingum.

Snúin samskipti ríkja á svæðinu

Á sama tíma og breytingar eiga sér stað í Sádi-Arabíu eiga ýmsar hræringar sér stað í alþjóða-samskiptum í þessum heimshluta.  Mikilvægasta breytingin, sé litið til langs tíma, er líklega sú að ríkin á svæðinu eru farin að mildast í afstöðu sinni til Ísraels ekki síst vegna hræðslunnar við Írani.  Íran sem helsta ríki síjamúslíma í Mið-Austurlöndum er ennþá höfuðóvinur Sáda sem eru súnnimúslímar.  Samskipti ríkjanna skánuðu ekki þegar Sádar hófu afskipti af borgarastyrjöldinni í Jeman árið 2015 til að styðja við bakið á stjórnvöldum en Sádar saka Írani um að styðja uppreisnarmenn.  Sádar eiga einnig í deilu við nágranna sína í Katar.   Hún snýst aðallega um Al Jazzera sjónvarpsstöðina sem Sádar segja að sé þeim andsnúin, samskipti Katar við Írani sem eru frekar góð og stuðning Katar við múslímska bræðralagið sem Sádar segja vera öfgasamtök.  Vegna þessa eldfima ástands í Flóaríkjunum sækjast flest ríkin þar eftir góðum samskiptum við Bandaríkin þar sem þau stuðli að stöðugleika á svæðinu.  Ríkin urðu fyrir vonbrigðum með Barack Obama Bandaríkjaforseta, ekki síst vegna kjarnorkusamningsins við Írani.  Þau binda meiri vonir við Donald Trump en hafa þó áhyggjur af því að hann muni ekki reynast traustur bandamaður.

Í lok umfjöllunar sinnar spyr The Economist hvort að Múhammeð bin Salman takist ætlunarverk sitt.  Það er ekki sjálfgefið og kann hann að vera sinn versti óvinur því þó hann virðist áhugasamur um breytingar í frjálsræðisátt þá hefur hann átt það til að sýna einræðistilburði sem gerir það að verkum að ekki eru allir sannfærðir um að varanlegar breytingar munu eiga sér stað á sádi-arabísku samfélagi.   Áhrif hans á nágrannaríki kunna einnig að verða minni en margir vona því samstarf ríkjanna í Flóabandalaginu (e. “Gulf Cooperation Council”) sem í eru öll arabaríki við Persaflóa fyrir utan Írak hafa verið stirð að undanförnu vegna Katardeilunnar.  Því er ljóst að það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála í þessum heimshluta á næstu misserum.

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …