Home / Fréttir / Söguleg þáttaskil í samskiptum við bandaríska flotann

Söguleg þáttaskil í samskiptum við bandaríska flotann

Landhelgisgæslan birti þessa mynd af varðskipsmönnum af Þór við flutning vista um borð í kafbátinn USS San Juan 26. apríl 2023.

Bandarískur árásarkafbátur af Los Angeles-gerð, USS San Juan, varð fyrsti kjarnorkuknúni kafbátur Bandaríkjamanna til að sigla að strönd Íslands í samræmi við nýgert þjónustusamkomulag milli stjórna Íslands og Bandaríkjanna.

Í tilkynningu íslenska utanríkisráðuneytinu miðvikudaginn 26. apríl sagði að

kafbáturinn hefði þann dag komið í stutta þjónustuheimsókn á hafsvæðið norðvestur af Garðskaga til að taka kost. Landhelgisgæsla Íslands hefði leitt framkvæmd heimsóknarinnar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið.

Varðskipið Þór fylgdi kafbátnum frá því að hann kom upp á yfirborðið við mörk landhelginnar og á meðan á heimsókninni stóð. Segir ráðuneytið að móttaka kafbátsins hafi verið vel undirbúin og framkvæmd í samræmi við verklagsreglur sem unnar voru í náinni samvinnu fyrrgreindra stofnanna og utanríkisráðuneytisins. Vel hafi gengið að flytja kostinn um borð í kafbátinn.

Stjórn sjötta flota Bandaríkjanna sagði að heimsókn kafbátsins hefði verið liður í að skerpa á vitneskju um stöðu mála á hafsvæðum á þessum slóðum og huga að öryggi neðansjávarkapla. Þá hefði hún einnig lagt grunn að framtíðarsamstarfi á grundvelli samkomulagsins milli stjórna Íslands og Bandaríkjanna sem kynnt var 18. apríl 2023.

Áréttar flotastjórnin að þetta sé í fyrsta sinn í sögunni sem Íslendingar heimili bandarískum kafbáti knúnum kjarnorku að koma inn í landhelgi sína.

„Við þökkum íslenskum bandamönnum okkar að leyfa San Juan að eiga þessa stuttu viðdvöl til að fá kost og mannskap innan íslenskrar landhelgi,“ er haft eftir kafteini John Craddock, yfirmanni Task Force 69.

Hann sagði að heimildin til að koma inn í íslenska landhelgi yki mjög á hæfni flotans til að gæta öryggis í GIUK-hliðinu, frá Grænlandi um Ísland til Bretlands.

Varðskipið Þór, USS San Juan og Magni út af Garðsskaga 26. apríl 2023.

Í frétt blaðsins Maritime Executive segir að Íslendingar hafi til þessa haldið fast í  þá stefnu að leyfa ekki komu kafbáta sem þessara inn í landhelgi sína þrátt fyrir að NATO-nágrannaþjóðir Íslendinga hafi ætíð leyft kjarnorkuknúnum kafbátum að koma inn í landhelgi sína. Megi rekja þetta til andstöðu við kjarnorkuvopn á Íslandi.

Minnt er á að breytt afstaða íslenskra stjórnvalda sé kynnt um svipað leyti og efnt sé til kafbátaæfingarinnar Dynamic Mongoose 2023 í nágrenni Íslands frá 24. apríl til 5. maí. Alls taki 15 herskip frá 10 NATO-löndum þátt í æfingunni.

Íslendingar taki eins og aðrir mið af breyttum viðhorfum í öryggismálum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Hafsvæðin undan strönd Íslands séu athafnasvæði kafbáta, einkum rússneskra kafbáta á leið frá Barentshafi.

Þá segir Maritime Executive að Ísland sé tengipunktur fyrir fjarskiptakapla neðansjávar og öryggi þeirra sé efst á lista hjá NATO. Vakin er athygli á úttekt ríkisútvarpsstöðva Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar á því hvernig Rússar noti togara og rannsóknarskip til að greina veika punkta á tengivirkjum neðansjávar við strendur NATO-ríkja.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …