Home / Fréttir / Söguleg þáttaskil í norrænu samstarfi með NATO-umsókn Finna og Svía

Söguleg þáttaskil í norrænu samstarfi með NATO-umsókn Finna og Svía

Norrænu forsætisráherrarnir með Olaf Scholz Þýskalandskanslara.

Norrænu forsætisráðherrarnir komum saman til árlegs sumarfundar í Osló mánudaginn 15. ágúst. Hér birtist annars vegar fréttatilkynning frá forsætisráðherra Íslands og hins vegar endursögn á fréttatilkynningu frá forsætisráðherra Noregs sem stýrði fundinum og sagði öryggis- og varnarmál í ljósi NATO-umsóknar Finna og Svía hafa verið meginumræðuefnið. Hún markaði söguleg þáttaskil í norrænu samstarfi.

Tilkynning íslenska forsætisráðherrans

„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í árlegum sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna. Ráðherrarnir áttu einnig fund með Ólafi Scholz, kanslara Þýskalands. Fundirnir fóru fram í Osló en Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu.

Meginefni fundar norrænu forsætisráðherranna var annars vegar breytt staða í öryggis- og varnarmálum í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu og fyrirhugaðrar aðildar Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar voru málefni hafsins og græn orkuskipti til umræðu en í þeim málaflokkum eru Norðurlöndin í fararbroddi á alþjóðavettvangi. Rætt var um tengsl loftslagsmála og hafsins, mikilvægi bláa hagkerfisins og fæðu úr hafi, og hvernig Norðurlöndin geta aukið samstarf sitt í grænum tæknilausnum og kolefnisbindingu.

Á fundinum voru samþykktar tvær sameiginlegar yfirlýsingar. Annars vegar yfirlýsing um norrænt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og hins vegar yfirlýsing um málefni hafsins og græn orkuskipti.

Á fundi ráðherranna með kanslara Þýskalands var rætt um öryggismál í Evrópu í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu og fyrirhugaða aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Einnig var þar rætt um græn orkuskipti og orkuöryggi i í álfunni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Á tímum sem þessum er mikilvægt að rækta norrænt samstarf enda sjaldan verið mikilvægara. Við Íslendingar fögnum ennfremur reglubundnu samtali Norðurlandanna og Þýskalands um mikilvægustu áskoranir samtímans, eins og loftslagsvána, orkumál og innrás Rússa í Úkraínu.““

Norski forsætisráðherrann sýndi nýja Munch-safnið í Osló.

Tilkynning norska forsætisráðherrans

Í tilkynningu norska forsætisráðuneytisins um fund norrænu ráðherranna segir að öryggismál hafi verið helsta umræðuefni þeirra. Ráðherrarnir hafi verið sammála að þróa frekar samstarf sitt um öryggis- og varnarmál.

„Að Finnar og Svíar óska eftir aðild að NATO markar söguleg þáttaskil í norrænum öryggismálum og varnarsamstarfi. Metnaður minn lýtur að því að við eigum að þétta enn frekar gott samstarf okkar,“ segir Jonas Gahr Støre forsætisráðherra í tilkynningunni og einnig:

„Vegna NATO-umsóknar Finna og Svía er unnt að líta til norrænna varna í stærra og meira skuldbindandi samhengi. Við eigum starfa og standa saman að aðgerðum sem bandamenn á hugsanlegum hættutímum eða í stríði. Sameinuð Norðurlönd í NATO eykur þunga okkar innan NATO-samstarfsins og leiðir til þess að sameiginleg gildi okkar verða sýnilegri og fá aukinn slagkraft,“ segir Støre.

Á fundinum urðu norrænu ríkin sammála um sameiginlega yfirlýsingu um varnir og öryggi. Þar er meðal annars vakin athygli á hvernig nýta megi NATO-aðild Finna og Svía til að styrkja frekar norrænar varnir. Þá er einnig nefnt að norrænu ríkin munu auka sameiginlegar æfingar og þjálfun og leggja sitt af mörkum til að þróa NATO sem hernaðarlegt og pólitískt bandalag.

Talið er að fyrstu stigum aukins norræns samstarfs á þessum sviðum beri að líta til loftvarna, aðstöðu og birgða á því sviði, auk sameiginlegra æfinga og þjálfunar á Norðurlöndunum og í tengslum við NATO. Aðild allra norrænu ríkjanna að NATO þýði að auðveldara verði fyrir þau að fá heildarmynd af því sem gerist í lofthelgi þeirra auk þess sem fyrir flugheri þeirra verði einfaldara að nýta flugvelli í einstökum löndum. Sameiginlega hafi norrænu ríkin í NATO yfir að ráða umtalsvert stærri flugher en ella með mörg hundruð orrustuflugvélum.

„Af norskri hálfu munum hlusta eftir því sem Finnar og Svíar telja nú sjálfir að gera beri þegar við lítum nú sameiginlega til þess hvernig við getum styrkt norræna samstarfið enn frekar þegar öll löndin eru saman í NATO. Nú er ekki vika liðin frá því að Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar komu sér saman um umgjörð um hvernig gera megi samninga um varnarbúnað og afhendingaröryggi,“ segir Støre.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …