
Salman bin Abdulaziz al Saud, konungur Sádi-Arabíu, heimsótti Rússland miðvikudaginn 4. október. Urðu þá tímamót í samskiptum landanna tveggja, mestu olíuútflutningsríkja heims. Konungur Sáda hefur aldrei fyrr hitt forseta Rússlands í Moskvu.
Í tengslum við heimsókn konungsins var ritað undir bráðabirgðasamkomulag um að Sádar kaupi S-400 loftvarnakerfi af Rússum. Þá hafa Sádar einnig áform um að kaupa Kornet-flaugar gegn skriðdrekum og skotpalla fyrir flugskeyti.
„Þetta er í fyrsta sinn sem konungur Sádi-Arabíu heimsækir Rússland í sögu samskipta okkar sem er í sjálfu sér mjög merkilegur atburður. Við höfum átt samskipti í töluvert langan tíma,“ sagði Pútín á fundi með konungnum og lýsti von um að tvíhliða samskipti landanna mundu aukast.
Konungurinn sagði hins vegar að stjórnvöld í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, vildu efla samskipti sín við ráðamenn í Moskvu í þágu friðar og öryggis auk þess að styrkja þróun alþjóðaefnahagsmála.
Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu sagði að ritað yrði undir nokkur „mikilvæg skjöl“. Rússneska iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sagði að Sádar ætluðu að festa fé í meira en 25 landbúnaðar-, olíu- og gasverkefnum. Þá sé ætlunin að koma á fót sameiginlegu fjárfestingafyrirtæki í orkumálum.
Salman bin Abdulaziz Al Saud bauð Vladimír Pútín í heimsókn til Sádi-Arabíu sem Rússlandsforseti þáði. Hann sagðist minnast fyrri heimsókna sinna til Riyadh með ánægju.
Konungurinn sagði að þeir ætluðu að halda áfram jákvæðri samvinnu sinni til að skapa jafnvægi á alþjóðlegum olíumörkuðu.