
Mánudaginn 19. júní lentu tvær bandarískar B-1B Lancer sprengjuvélar í fyrsta sinn hjá Norbotten Wing, F21, flugherstöðinni sænsku í Luleå í Norður-Svíþjóð. Bandarísku vélarnar komu frá bækistöð sinni í Bretlandi til æfinga með sænska hernum.
Vegna þessarar fyrstu komu bandarískra sprengjuvéla til sænsks flugvallar sagði hershöfðinginn Tommy Petersson, annar æðsti yfirmaður sænska flughersins, í fréttatilkynningu: „Þetta er sögulegur viðburður. Öflugir samstarfsaðilar eru mikilvægir á þessum óvissutímum og meðan beðið er aðildar að NATO.“
Hershöfðinginn sagði að sænski flugherinn hefði æft reglulega með sprengjuflugvélum Bandaríkjamanna en nú væri stigið enn eitt skref til náins samstarfs með því að B1-B Lancer vélarnar lentu á sænsku landi.
Þrjár sænskar Jas 39 Gripen orrustuþotur fylgdu bandarísku vélunum til lendingar.
Petersson minnti á að Norbotten og Luleå væru hernaðarlega mikilvæg svæði í Svíþjóð og Wing F21 flughersveitin hefði mikla reynslu af samstarfi við heri annarra þjóða.