Home / Fréttir / Söguleg fangaskipti Úkraínumanna og Rússa

Söguleg fangaskipti Úkraínumanna og Rússa

50338365_303

Langvinnar samningaviðræður milli fulltrúa stjórnvalda í Úkraínu og Rússlandi leiddu laugardaginn 7. september til fangaskipta milli landanna. Alls var skipst á 35 föngum frá hvorum aðila. Frá því að átökin hófust milli ríkjanna árið 2014 hafa engin sambærileg samskipti verið milli þeirra.

Í friðarsamkomulaginu sem kennt er við Minsk er gert ráð fyrir fangaskiptum. Til þeirra hefur komið í áranna rás en gildi þess sem gerðist laugardaginn 7. september er sérstakt vegna þeirra fanga sem komu þar við sögu. Mest athygli hefur lengi beinst að að Oleg Sentsov, kvikmyndagerðarmanni frá Úkraínu, og Volodymíjr Tsemakh, sem sagður er hafa stjórnað uppreisn Rússavina í austurhluta Úkraínu og er höfuðvitni vegna skotflaugaárásarinnar á farþegaflugvélina MH17 sumarið 2014.

Fréttaskýrendum ber saman um að andrúmsloftið í viðræðum um fangaskiptin hafi breyst eftir að Volodymíjr Zelenskíj var kjörinn forseti Úkraínu fyrr á árinu. Þá er talið að það hafi styrkt stöðu Úkraínumanna að leyniþjónustumönnum þeirra tókst öllum að óvörum að handtaka Tsemakh á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Rússneski milljarðamæringurinn Mikhail Khodorkovskíj sagði rússnesku útvarpsstöðinni Echo í Moskvu að hann væri sannfærður um að Rússum væri kappsmál að fá Tsemakh í eigin hendur til að veikja málstað ákæruvaldsins í málaferlum vegna árásarinnar á MH17 sem fara fram á næsta ári í Hollandi.

Í hópi Úkraínumannanna 35 sem fengu frelsi voru 24 úr áhöfnum þriggja skipa sem rússneska strandgæslan hertók í nóvember 2018. Áður hafði alþjóðlegi Hafréttardómstóllinn í Hamborg úrskurðað (í maí 2019) að sleppa bæri sjómönnunum þar sem Rússar hefðu brotið gegn alþjóðalögum.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov (43 ára) mótmælti á sínum tíma innlimun Rússa á Krímskaga. Rússar höfðu dæmt hann í 20 ára fangelsi fyrir hryðjuverk.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …