Home / Fréttir / Snowden hefur ekki stöðu uppljóstrara heldur var fýldur starfsmaður

Snowden hefur ekki stöðu uppljóstrara heldur var fýldur starfsmaður

Borgarahreyfingar berjast fyrr sakaruppgjöf Snowdens sem uppljóstara.
Borgarahreyfingar berjast fyrr sakaruppgjöf Snowdens sem uppljóstara.

Edward Snowden (33 ára), fyrrverandi starfsmaður bandarískrar njósnastofnunar var „óánægður“ starfsmaður en ekki „einlægur uppljóstrari“ segir í skýrslu bandarískrar þingnefndar. Hópar sem berjast fyrir rétti borgaranna vilja að Barack Obama Bandaríkjaforseti veiti honum sakaruppgjöf.

Í útdrætti úr skýrslu sem bandarísk þingnefnd, leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar undir formennsku repúblíkana, hefur samið kemur fram að Snowden, fyrrverandi verktaki hjá Þjóðaröyggisstofnuninni, National Security Agency (NSA), hafi verið „óánægður starfsmaður sem var oft upp á kant við yfirmenn sína og fékk áminningu aðeins nokkrum vikum áður en tók að hlaða niður trúnaðarskjölum á ólögmætan hátt“.

Í skýrslunni segir að Snowden hafi „ekki kvartað við neina eftirlitsmenn“ hjá NSA og ekki eigi að líta á hann sem uppljóstrara sem njóti lagaverndar.

„Hann kallaði hættu yfir hermenn okkar og bandarísku þjóðina eftir að hann ímyndaði sér að yfirmenn hans hefðu lítilsvirt hann,“ sagði í yfirlýsingu frá formanni nefndarinnar, Devin Nunes, fulltrúadeildarþingmanni repúblíkana. „Í ljósi alls þess sem hann hefur ýkt eða beinlínis búið til og lýst er í þessari skýrslu ætti enginn að trúa orði af því sem hann segir.“

Efni skýrslunnar sem er 36 bls. er trúnaðarmál. Fjögurra blaðsíðna útdráttur úr henni var hins vegar birtur fimmtudaginn 15. september, daginn fyrir frumsýningu í Bandaríkjunum á kvikmynd um Snowden eftir Oliver Stone.

Það var árið 2013 sem allra augu beindust af Edward Snowden eftir að hann lak upplýsingum um víðtækar hleranir og njósnir á vegum NSA.

Alls er talið að Snowden hafi hlaðið niður 1,5 milljón trúnaðarskjölum. Hann segist ekki hafa látið þau öll öðrum í té. Í skýrslu þingnefndarinnar er hins vegar bent á að varaformaður varnar- og öryggismálanefndar rússneska þingsins hafi viðurkennt opinberleg í júní 2016 að að Snowden hafi miðlað leynilegum upplýsingum til ríkisstjórnar Rússlands.

Skil mynduðust í umræðum um mál Snowdens og örlög hans milli þeirra sem telja það virða beri borgaraleg réttindi til að miðla upplýsingum að hætti Snowdens og einarðra þingmanna sem vilja slíku athæfi skorður meðal annars vegna baráttunnar gegn hryðjuverkamönnum.

Nú vilja stuðningsmenn Snowdens að honum verði veitt sakaruppgjöf vegna þess að hann hafi lagt svo mikið af mörkum til að afhjúpa leynileg eftirlitskerfi með almennum borgurum í Bandaríkjunum.

Ben Wizner, lögfræðingur Snowdens við Bandaríska borgararéttindasambandið, American Civil Liberties Union, sagði skýrsluna tilraun til að sverta mannorð „sannrar bandarískrar hetju“.

„Þrátt fyrir áralanga rannsókn getur nefndin ekki enn bent á eina langsótta staðreynd sem sýnir að uppljóstranir Snowdens hafi skaðað einhvern,“ segir Wizner. „Á stund þegar meiri hreinskilni fékk að ráða sagði varaforstjóri NSA sem átti beina aðild að rannsókn ríkisstjórnarinnar afdráttarlaust að hann teldi ekki að Snowden hefði starfað með Kínverjum eða Rússum.“

Fulltrúar beggja flokka í þingnefndinni sendu bréf til Obama forseta og hvöttu hann til að verða ekki við ósk Snowdens um sakaruppgjöf.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …