Home / Fréttir / Smáskrefa-aðferð Angelu Merkel er stefna ESB gagnvart úrsögn Breta

Smáskrefa-aðferð Angelu Merkel er stefna ESB gagnvart úrsögn Breta

Angela Merkel í Brussel
Angela Merkel í Brussel

Ákvörðun breskra kjósenda fimmtudaginn 23. júní um að segja Bretland úr Evrópusambandinu var kynnt á leiðtogaráðsfundi ESB í Brussel þriðjudaginn 28. júní þegar David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, sat síðasta fund sinn í ráðinu. Samþykktu leiðtogarnir að gefa breskum stjórnvöldum svigrúm þar til arftaki Camerons hefði verið valinn.

Eftir að hafa orðið undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni sagði Cameron af sér og tilkynnt að það yrði í höndum nýs forsætisráðherra Breta í september eða október að ákveða næstu skref í samskiptum breskra stjórnvalda við ESB. Í sáttmála ESB er í 50. gr. mælt fyrir um hvernig staðið skuli að úrsögn úr sambandinu. Það er á valdi viðkomandi ríkis að tilkynna úrsögnina á formlegan hátt og virkja 50. gr. en þar segir að tíminn til að semja um úrsögn sé 2 ár nema aðilar séu einróma um að framlengja hann.

Tilkynning Camerons um að Bretar mundu sjálfir ákveða lengd umþóttunartíma síns áður en þeir virkjuðu 50. gr. vakti strax hörð viðbrögð, ekki síst hjá Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sem sagði til dæmis í þýsku sjónvarpsstöðinni ARD laugardaginn 25. júní að hann vildi „tafarlaust“ hefja viðræður um brottför Breta. Í ESB-þinginu þriðjudaginn 28. júní lýsti Juncker undrun sinni yfir að breskir þingmenn sætu þar enn: „Hvers vegna eruð þið ekki farnir?“ spurði hann og sagðist hafa bannað öllum embættismönnum ESB að eiga óformlegar viðræður við Breta.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sem er fræg fyrir vel ígrunduð smáskref sín við lausn erfiðra mála segir að Bretar og ríkisstjórn þeirra eigi að fá ráðrúm til að hugsa sinn gang og móta afstöðu sína eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Jafnaðarmenn, samstarfsmenn Merkel í þýsku ríkisstjórninni, eru ekki sammála kanslaranum um þetta og sögðu að leggja eigi hart að Bretum og knýja þá til skjótrar niðurstöðu um úrsagnarskilmála.

Þýski jafnaðarmaðurinn Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, sagði að Bretar ættu að í síðasta lagi „á þriðjudag [28. júní]“ að virkja 50. greinina.

David Cameron fór frá Brussel að kvöldi þriðjudags 28. júní með staðfestingu á því að leiðtogarnir 27 sem eftir sátu samþykktu að bíða eftir ákvörðun arftaka hans í október um næstu skref Breta. Stefna Angelu Merkel hafði enn einu sinni orðið að stefnu ESB – smáskrefa lausninni verður beitt af ESB gagnvart Bretum.

Eftir leiðtogaráðsfundinn með Cameron sagði Angela Merkel að hún sæi ekki nokkra leið fyrir Breta að hverfa frá ákvörðun sinni um að segja sig úr Evrópusambandinu. Hún sagði samtöl sín við Cameron hafa verið „alvarleg“ og „vinsamleg“. Nú ættu menn hvorki að láta sorg né reiði ráða afstöðu sinni heldur yrðu þeir einfaldlega að takast á við fyrirliggjandi viðfangsefni. „Við verðum öll að líta á stöðuna eins og hún er. Nú á óskhyggja ekki að ráða.“

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …