Home / Fréttir / Slóvenar segja óleystan flóttamannavanda upphaf endaloka ESB

Slóvenar segja óleystan flóttamannavanda upphaf endaloka ESB

Flóttamenn í búðum við landamæri Slóveníu og Austurríkis.
Flóttamenn í búðum við landamæri Slóveníu og Austurríkis.

Leiðtogar 10 aðildarríkja ESB auk fulltrúa frá Makedoníu, Serbíu og Albaníu komu síðdegis sunnudaginn 25. október  til fundar í Brussel um vandann vegna aðkomufólks til Evrópu. Framkvæmdastjórn ESB lagði fyrir fundinn áætlun í 16 liðum þar sem meðal annars er mælt með nánara samstarfi ríkjanna til að hafa stjórn á straumi flóttamanna um vestanverðan Balkanskaga.

Í Slóveníu hefur fjöldi aðkomumanna skapað stjórnvöldum óviðráðanlegan vanda. Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu, sagði í tilefni fundarins: „Framtíð Evrópu [les: ESB] er í húfi verði ekki gripið til allra ráða í okkar valdi til að finna sameiginlega lausn.“ Kæmi ekki til þess yrði það „upphaf endaloka ESB og Evrópu sem slíkrar“. Cerar segir að undanfarna tíu daga hafi yfir 60.000 flóttamenn komið til Slóveníu og það sé með „öllu óviðunandi“. Sé þessi tala færð yfir á stærra land eins og Þýskaland jafngilti það því að þangað kæmi hálf milljón aðkomumanna dag hvern.

Búlgarar, Rúmenar og Serbar óttast að í fleiri ESB-ríkjum reisi menn landamæragirðingar eins og þær sem hafa verið reistar í Ungverjalandi. Þeir vilja ekki að lönd þeirra verði einskonar „biðstofur“ fyrir flóttamenn. Í neyðartilvikum neyðist þjóðirnar ef til vill til að loka eigin landamærum.

Fyrir leiðtogafundinn sagði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, að hann yrði í raun áheyrnarfulltrúi á fundinum. Ungverjar hefðu beint flóttamannastrauminum frá landi sínu. Hann sagðist vona að á fundinum yrði unnt að binda enda á stefnu opinna landamæra innan Schengen-svæðisins. Þessi „opna-stefna“ fæli í sér „heimboð“ inn á Schengen-svæðið.

Frá því að Ungverjar lokuðu landamærum sínum um miðjan september hafa tæplega 230.000 flóttamenn farið um Króatíu. Þaðan taka þeir stefnu til Slóveníu. Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu, taldi ólíklegt að mikill árangur yrði á leiðtogafundinum sem hófst síðdegis sunnudaginn 25. október. Hann sagði um fundargögnin frá framkvæmdastjórn ESB: „Sá sem hefur skrifað þetta skilur alls ekki hvernig málum er háttað.“

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segir skaða að Tyrkjum hafi ekki verið boðnir á fundinn í Brussel. Án þeirra yrði erfitt að leysa vandann vegna flóttamanna sem leita til Grikklands frá Tyrklandi.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …