Home / Fréttir / Slóvakía: Andúð á spillingu réð vali á forseta

Slóvakía: Andúð á spillingu réð vali á forseta

Zuzana Caputova.
Zuzana Caputova.

Zuzana Caputova. frjálslyndur lögfræðingur, verður fyrsta konan í embætti forseta í Slóvakíu. Hún sigraði í annarri umferð forsetakosninga í landinu laugardaginn 30. mars. Hún hlaut 58,38% atkvæða eftir að hafa gert baráttu gegn spillingu að helsta kosningamáli sínu. Maros Sefcovic og varaforseti framkvæmdastjórnar ESB var andstæðingur hennar og frambjóðandi ráðandi vinstri afla í Slóvakíu, hann hlaut 41,51% atkvæða.

Þegar úrslitin lágu fyrir hvatti Caputova Slóvaka til samstöðu. „Leitum að því sem sameinar okkar, skipum samvinnu ofar eigin hagsmunum,“ sagði hún á blaðamannafundi. „Kosningabaráttan hefur sannað mér að unnt er að sigra án þess að ráðast á andstæðinga sína og ég held að þetta muni einnig sýna sig þegar kosið verður til ESB-þingsins og þings Slóvakíu á næsta ári.“

Keppinauturinn óskaði nýja forsetanum til hamingju og sagðist ætla að senda henni blómvönd þar sem hún væri fyrsta konan til að skipa embætti forseta Slóvakíu.

Andrej Kiska, fráfarandi forseti, lýsti ánægju með kjör Caputovu og sagði öruggt að fjöldi þjóða öfundaði Slóvaka af því að eignast forseta sem aðhylltist gildi Caputovu. „Siðferðiskreppa ríkir í Slóvakíu og það er þörf fyrir forseta eins Zuzönu Caputovu,“ sagði Kiska.

Stjórnmálaskýrendur segja að skýra megi góðan sigur Caputovu með því að vísa til almennrar óánægju meðal kjósenda í garð stjórnvalda eftir morðið á rannsóknarblaðamanninum Jan Kuciak og unnustu hans í fyrra. Talið er að blaðamaðurinn hafi verið að því kominn að birta grein sem sýndi tengsl milli slóvaskra stjórnmálamanna og ítölsku mafíunnar. Caputova (45 ára) tók þá þátt í mótmælum þúsunda Slóvaka gegn ríkisstjórn vinstrisinnaða Smer-SD flokksins. Þau leiddu til þess að Robert Fico forsætisráðherra baðst lausnar.

Til þessa hafa fimm manns verið handtekin vegna morðsins og þar á meðal sá sem grunaður er um að standa að baki því – marg-milljóneri sem tengsl við Smer-SD.

Caputova, fimmti forseti Slóvakíu, er fráskilin tveggja barna móðir. Hún barðist fyrir umhverfisvernd, stuðningi við eldri borgara og umbótum á réttarkerfinu sem hefðu í för með sér skil á milli stjórnmálamanna annars vegar og saksóknara og lögreglu hins vegar. Þá talaði hún einnig máli minnihlutahópa í landinu.

Forseti Slóvakíu fer ekki með formleg völd. Hann skrifar undir alþjóðasamninga og skipar æðstu dómara. Hann er einnig æðsti yfirmaður hersins og getur neitað að skrifa undir lög. Nýi forsetinn tekur við embættinu 15. júní.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …