Home / Fréttir / Skýrslur um glæpaverk Assad-stjórnarinnar vega mörg tonn – erfitt að leita réttlætis

Skýrslur um glæpaverk Assad-stjórnarinnar vega mörg tonn – erfitt að leita réttlætis

Bashar al-Assad veifar til sýrlenskra þingmanna,
Bashar al-Assad veifar til sýrlenskra þingmanna,

Í fórum einnar stofnunar í Evrópu er að finna þrjú tonn af opinberum sýrlenskum gögnum sem hafa að geyma hrollvekjandi og víðtækar upplýsingar um stríðsglæpi sýrlensku stjórnarinnar. Ljósmyndari sýrlensku lögreglunnar flýði með myndir af meira en 6.000 líkum fólks sem fallið hafði fyrir hendi ríkisvaldsins, mörg þeirra bera merki um pyntingar. Snjallsíminn einn hefur rofið stríðshindranir: Skrásetning glæpaverka er nú svo lýsandi, svo tafarlaus, svo yfirþyrmandi.

Á þessum orðum hefst löng og nákvæm úttekt blaðamanna sem birtist í The New York Times laugardaginn 15. apríl undir fyrirsögninni: Andstæðingar Assads leita réttlætis fyrir fórnarlömb Sýrlandsstríðsins.

Blaðamennirnir segja að þótt stríðið hafi staðið í sex ár og allt þetta magn af gögnum liggi fyrir – ef til meira en um nokkur fyrri átök – hafi málsvörum fórnarlambanna gengið illa að knýja fram réttlæti í málum þeirra. Þeir sem standi að baki grimmdarverkunum gangi lausir og það sé engin skýr leið til að skjóta málum vegna þeirra fyrir dómara, hvernig sem leitað sé.

Rúmlega 400.000 hafa verið felldir í Sýrlandsstríðinu. Helmingur landsmanna hefur yfirgefið heimili sín. Sýrlenskir mannréttindahópar hafa skráð rúmlega 100.000 sem týnda, fangelsaða eða myrta. Tugir þúsunda þjást í fangelsum ríkisstjórnarinnar þar sem pyntingar, skortur, óþrifnaður og mannþröng er svo mikil að nefnd Sameinuðu þjóðanna sagði að jafngilti „útrýmingu“, glæpi gegn mannkyni.

Til þessa hefur aðeins eitt stríðsglæpamál verið höfðað gegn sýrlenskum embættismanni: fyrir dómstóli á Spáni vegna manns sem lést í vörslu ríkisins.

Ekkert mál hefur farið fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn. Sýrland gerðist aldrei aðili að honum svo að aðalsaksóknarinn getur ekki hafið rannsókn af sjálfsdáðum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gæti skotið máli til dómstólsins en Rússar hafa hvað eftir annað beitt neitunarvaldi til að bjarga sýrlenskum stjórnvöldum undan alþjóðlegri fordæmingu. Tækist á annað borð að koma máli í gegnum ráðið ber að hafa í huga að mjög erfitt er að ná til Bashars al-Assads Sýrlandsforseta og samstarfsmanna hans sem eru niður njörvaðir í Damaskus.

Fórnarlömb efnavopnaárásar Assad-stjórnarinnar.
Fórnarlömb efnavopnaárásar Assad-stjórnarinnar.

Bent er á að efnavopnaárásin á dögunum hafi aðeins verið síðasta grimmdarverkið af fjölmögum undanfarin ár þar sem stjórn Assads hafi stundað pyntingar, látið fólk hverfa, setið um og kastað sprengjum á almenn íbúðahverfi og sjúkrahús. Þessu verði fram haldið á meðan Assad sé við völd.

Allir aðilar hernaðarátakanna í Sýrlandi hafa unnið voðaverk. Uppreisnarmenn hafa kastað sprengjum á almenn íbúðahverfi og heilagir stríðsmenn al-Kadída og Daesh hafa notað sjálfsmorðssprengjur, pyntað andstæðinga sína og drepið ganga, oft fyrir framan myndavélar.

Sýrlandsstjórn og bandamenn hennar hafa að mati rannsakenda brotið mest af sér. Þetta gera þeir í skjóli ríkisvaldsins, með tilstyrk hersins og flughersins, öflugrar leyniþjónustu og fangelsiskerfis.

Sýrlandsstjórn lýsir átökunum sem alþjóðlegu samsæri sem miði að því að eyðileggja landið og lýsir öllum andstæðingum sínum sem hryðjuverkamönnum á vegum erlendra afla. Hún neitar að her sinn hafi notað efnavopn eða framið grimmdarverk.

Blaðamaður The New York Times ræddi við Assad í fyrra. Hann sagði að farið væri með alla fanga í samræmi við lög og hafnaði öllum ásökunum þúsunda fjölskyldna um að ástvinir þeirra hefðu horfið sporlaust.

„Þetta eru dylgjur,“ sagði Assad. „Hverjar eru staðreyndirnar?“

Sýrlenska uppreisnin hófst með fangelsun og pyntingum í mars 2011: Nokkrir tugir pilta voru teknir fastir eftir að einn vinur þeirra krotaði á vegg: „Það er komið að þér, doktor.“ Orðin gáfu til kynna að Assad, fyrrv. augnlæknir, yrði næstur arabaleiðtoga til að hrekjast frá völdum. Piltarnir voru handreknir, lamdir, pyntaðir og neyddir til að skrifa undir játningu sagði einn þeirra við blaðamann NYT.

Í fyrra birti nefnd Sameinuðu þjóðanna skýrslu þar sem vitnað var í sýrlenskan leyniþjónustuforingja sem sagði að fyrirmæli hefðu verið gefin um að handtaka alla karlmenn á aldrinum 16 og 40 ára sem tækju þátt í mótmælaaðgerðum.

Það er sjaldgæft að finna sýrlenska flóttamannafjölskyldu sem segir ekki að eitthvert skyldmenni hafi verið handtekið eða horfið og enn sjaldgæfara að finna fyrrverandi fanga sem ekki hefur verið pyntaður sagði Sareta Ashraph sem var þar til nýlega yfirsérfræðingur nefndar Sameinuðu þjóðanna.

Hundruð þúsunda Sýrlendinga hafa mátt sæta umsátri sýrlenska stjórnarhersins segja fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sem hefur margsinnis verið neitað um leyfi til að flytja matvæli og hjúkrunargögn til fólksins. Á árinu 2013 voru gerðar efnavopnaárásir þar sem rúmlega 1.400 manns féllu í nokkrum úthverfum Damaskus.

Nokkrir tugir manna hafa dáið af hungri, mörg börn, sjúklingar og gamalmenni.

Læknablaðið The Lancet og starfsmenn Bandarískra sjúkrahússins í Beirút hafa talað um „vígvæðingu heilbrigðiskerfisins“ í Sýrlandi og vísað til frelsissviptingar lækna og kerfisbundinna árása á læknamiðstöðvar. Tæplega 800 manns úr hópi hjúkrunarfólks hafa verið drepin, yfir 90% af útsendurum stjórnvalda segja samtökin Læknar í þágu mannréttinda.

Hópur sem nefnist Commission for International Justice and Accountability, Nefnd í þágu alþjóðlegs réttlætis og ábyrgðar, hefur árum saman safnað opinberum gögnum sem borist hafa með leynd frá Sýrlandi.

Vesturveldin leggja hópnum til fé en hann hefur nú meira en 750.000 opinber, sýrlensk gögn undir höndum. Þar er að finna hundruð eða þúsundir nafna, þar á meðal á þeim sem sitja í æðstu embættum sýrlenska ríkis-öryggiskerfisins. Nafn Assads forseta kemur oft fyrir í þessum gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um hvers kyns glæpaverk. Forráðamenn hópsins vildu ekki að blaðamenn NYT vissu hvar hann hefði aðsetur í Evrópu af ótta við útsendara Assads.

Árið 2013 smyglaði ljósmyndari sýrlensku lögreglunnar sem gengur undir dulnefninu Caesar rúmlega 50.000 myndum út úr Sýrlandi og þar má sjá lík þúsunda manna sem hann myndaði innan fangelsa sýrlensku öryggislögreglunnar, mörg þeirra eru limlest eftir pyntingar. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur staðfest að alls megi sjá andlit 6.700 manna á myndunum. Rúmlega 700 hafa verið nafngreindir.

Systir eins þeirra sem greindist á þessum myndum skaut máli í nafni hans fyrir rétt á Spáni. Í mars 2017 samþykkti dómari þar að hefja rannsókn vegna ásakana um að sýrlenska ríkið beitti hryðjuverkaaðferðum og ákæra níu yfirmenn sýrlensku öryggis- og leyniþjónustunnar fyrir að nota ríkisstofnanir til að fremja fjöldaglæpi gegn almennum borgurum.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …