Home / Fréttir / Skyndiför Zelenskíjis í leit að liðsauka – stórsókn Rússa í augsýn

Skyndiför Zelenskíjis í leit að liðsauka – stórsókn Rússa í augsýn

Újkraínuforseti og breski forsætisráðherran kynntu sér breska fluhjerstöð.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sat fund í leiðtogaráði ESB í Brussel og áréttaði þá skoðun að ekki yrði unnt að tryggja frelsi í Evrópu nema frelsi Úkraínu yrði tryggt. Hvatti hann jafnframt til þess að Evrópuríki legðu Úkraínuher til meira af vopnum.

„Það eiga ekki að vera grá svæði í Evrópu, allt meginland okkar ætti að sæta sömu evrópsku örlögum,“ sagði Zelenskíj á fundi leiðtogaráðsins fimmtudaginn 9. febrúar. Þar hvatti hann einnig til þess að hratt yrði staðið að afgreiðslu á umsókn Úkraínustjórnar um aðild að ESB.

Forsetinn sagði að Úkraínumenn hefðu „aldrei viljað, aldrei ýtt undir“ allsherjarinnrás Rússa í land þeirra fyrir tæpu ári. Nú væri þróun öryggismála í allri Evrópu tengd úrslitum átakanna.

„Einhugur Evrópuþjóða er grunnstoð öryggis,“ sagði Zelenskíj og að ekki væri „unnt að hugsa sér frjálsa Evrópu án frjálsrar Úkraínu“.

Heimsókn Zelenskíjs til Brussels 9. febrúar var síðasti áfanginn á óvæntu ferðalagi hans til London og Parísar til að hvetja til þess að meira af vopnum yrði afhent Úkraínumönnum fyrir utan að þrýsta á um aðildina að ESB. Rússar hafa að sögn aukið sókn sína í austurhluta Úkraínu undanfarna og spá margir að það sé til marks um yfirvofandi stórárás.

Leiðtogar allra 27 ESB-ríkjanna sóttu fundinn í Brussel. Zelenskíj þakkaði fyrir skriðdeka og annan vopnabúnað frá ríkjunum en hvatti til þess að nú létu þau af hendi enn háþróaðri vopn, þar á meðal orrustuþotur og langdrægar skotflaugar.

Samstaða en erfitt aðildarferli

Á blaðamannafundi eftir leiðtrogaráðsfundinn sagði Zelenskíj að nokkrir leiðtoganna hefðu gefið til kynna að frá þeim kæmu fleiri vopn, þar á meðal flugvélar. Hann greindi ekki nánar frá því hverjir þessir leiðtogar væru en sagði: „Frakkar og Þjóðverjar hafa burði til að valda þáttaskilum og þannig lít ég á samtöl okkar í dag.

Því fyrr sem við fáum þung langdræg vopn og flugmenn okkar fá nútíma flugvélar … þeim mun fyrr lýkur innrás Rússa.“

Áður ávarpaði Zelenskíj ESB-þingið og sagði þjóð sína berjast við „stærsta and-evrópska herafla samtímans“.

Hann þakkaði ESB-þingmönnunum einnig stuðning þeirra frá því að stríðið hófst fyrir tæpu ári. „Kærar þakkir,“ sagði Zelenskíj og þingmenn risu úr sætum með langvinnu lófataki. „Við verjum okkur sjálf á vígvellinum, við Úkraínumenn, ásamt með ykkur…“

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, endurómaði áhyggjur ýmissa innan ESB af því að erfitt yrði fyrir Úkraínustjórn að fullnægja ýmsum aðildarskilyrðum ESB, eins og varðandi aðgerðir gegn spillingu, áður en aðildarviðræður milli aðila hefjast. „Leiðin til friðar, endurreisnar og aðildar verður löng og erfið,“ sagði Michel. Hann tók jafnframt fram að ESB mundi standa við hlið Úkraínu við hvert skref á leiðinni. Fyrir árslok mundi leiðtogaráðið leggja mat á stöðu og framgang aðildarviðræðnanna.

Orrustuþotur efstar á blaði

Í ræðu sem Zelenskíj flutti í breska þinginu miðvikudaginn 8. febrúar hvatti hann sérstaklega til þess að vestræn ríki legðu her sínum til orrustuvélar, „vængi til frelsis“.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, brást jákvætt við tilmælum Zelenskíjs og gaf fyrirmæli um að lögð yrðu drög að því að senda mætti orrustuþotur til Úkraínu. Hefur breska varnarmálaráðuneytið þegar stigið fyrstu skref í þá átt. Breska ríkisstjórnin braut ísinn og varð fyrst til að lofa Úkraínumönnum orrustuskriðdrekum fyrir nokkrum vikum.

Breska stjórnin lét Zelenskíj í té flugvél til að hann kæmist í skyndiför sína til London, Parísar og Brussel. Fór Sunak út á Stansted flugvöll við London og faðmaði Zelenskíj að sér við komuna til landsins.

Að kvöldi miðvikudagsins hitti Zelenskíj Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Olaf Scholz Þýskalandskanslara í París.

Svo vitað sé er þessi tveggja daga ferð Zelenskíjs aðeins önnur ferð hans utan Úkraínu frá því að Rússar hófu innrás sína 24. febrúar 2022.

Kremlverjar reiðir

Dmitry Peskov, talsmaður Kremlverja í Moskvu, sagði 9. febrúar að með þátttöku orrustuvéla frá Vesturlöndum skýrðist betur „bein“ aðild NATO-ríkja að stríðinu, það yrði aðeins til að ýta undir spennu og auka á þjáningar Úkraínumanna.

„Þetta er ekkert annað en aukin þátttaka Breta, Þjóðverja og Frakka í átökunum milli Rússa og Úkraínumanna,“ sagði Peskov við blaðamenn og: „Skilin milli óbeinnar og beinnar þátttöku minnkar jafnt og þétt. Ekki er annað hægt en harma þetta og segja að aðgerðir sem þessar … verða til þess að spenna magnast, þær lengja átökin og gera þau sífellt sársauka meiri fyrir Úkraínumenn.“

Stórsókn Rússa spáð.

Fréttir frá austurhluta Úkraínu benda til þess að stórsókn Rússa sé hafin þar er þar meðal annars vísað til þess sem birtis í mati bandarísku hugveitunnar Institute of War (ISW). Þá sagði úkraínski héraðsstjórinn í Luhansk héraði að árásum Rússa hefði fjölgað mikið þar.

Leyniþjónusta Breta segir að líklega hafi Rússar undirbúið árás á þessum slóðum undanfarnar vikur. Þá herma fréttir að Rússar hafi slökkt á öllum farsímakerfum í Luhansk til að fela ferðir hermanna. Frá úkraínskum heimildarmönnum berast fréttir um bardagar undanfarið hafi verið þeir blóðugustu frá því að stríðið hófst.

Bendir ýmislegt til þess að Rússar hafi stefnt um 500.000 manna liði á þessar slóðir og verði þeir sendir inn í Úkraínu. Þeir berjist samkvæmt kenningunni að mikill mannafli verði aldrei gjörsigraður og nái að lokum takmarki sínu. Óvíst er yfir hvaða tækjum og vígtólum þessi mikli herafli ræður.

Fréttir berast um að landamærum Rússlands gagnvart Georgíu hafi verið lokað og að frá 1. mars verði Rússar að fá sérstaka heimild til að fara úr landi.  Þykir þetta benda til þess að leitað sé að nýliðum í herinn og öllum ráðum sé beitt til að hindra þá sem kallaðir eru til vopna til að laumast úr landi. Þá ber nú að hafa aðstöðu til herskráningar í rússneskum háskólum.

Vandræði Wagner málaliða.

Málaliðar í Wagner-hernum sem stjórnað er af Jevgenij Prigozjin, gömlum vini Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, hafa barist við hlið en einnig í keppni við stjórnarher Rússa.

Sagt er að æ erfiðara sé fyrir Prigozjin að fá menn til liðs við sig en rússnesk fangelsi hafa verið kjörlendi hans til þessa. Þar vilja fangar ekki lengur fá frelsi með því skilyrði að þeir berjist fyrst í Úkraínu. Ræður þar mestu orðrómur um að í raun séu fangar ekki annað en „fallbyssufóður“ í augum herstjórans.

Svar Prigozjins er að miðla falsfréttum þess efni að þeir fangar sem eru á lífi eftir stríðsþátttökuna og hafa uppfyllt skilyrðið um hálfs árs herþjónustu séu nú frjálsir menn og njóti lífsins.

Það eru ekki aðeins fangar sem hafa snúist gegn Prigozjin heldur einnig stjórnendur fangelsa og fangabúða sem vilja ekki að hann taki frá þeim vinnuafl sem standi undir rekstri fangelsiskerfisins.

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …