
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina sem tekið var í Skotlandi laugardaginn 14. júlí og sýnt sunnudaginn 15. júlí að hann gengi ekki til viðræðna við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í Helskinki mánudaginn 16. júlí með miklar væntingar.
Trump sagðist mundu upplýsa það að fundinum loknum hvert væri markmið sitt með honum. Viðræður forsetanna hefjast í forsetahöllinni í Helsinki kl. 13.00 að staðartíma, 10.00 að íslenskum tíma.
Í viðtalinu sagði Trump fyrst að hann hefði ekki í hyggju að biðja Pútin um að framselja Rússana 12 sem ákærðir eru voru föstudaginn af sérstökum saksóknara í Washington fyrir afskipti af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Þegar fyrirspyrjandinn gekk á hann sagði Trump að ef til vill mundi hann krefjast framsals. Hann mundi spyrja um þetta sem hefði gerst þegar Barack Obama var forseti. Enginn framsalssamningur er í gildi milli Rússa og Bandaríkjamanna.
Roger Stone, pólitískur ráðgjafi og vinur Donalds Trumps, hefur viðurkennt að hann sé „líklega“ nefndur í ákærunni gegn rússneskum njósnurum sem tengiliður þeirra og félagi Donalds Trumps. Njósnararnir eru sakaðir um atlögu á bandarísku forsetakosningunum árið 2016.
Í ákærunni eru Rússarnir sakaðir um að hafa búið til netverjann Guccifer 2.0 og látið hann skrifa til ónafngreinds einstaklings „sem hafði reglulega samband við háttsetta menn í kosningastjórn Donalds J. Trumps“. Í ákærunni segir að 15. ágúst 2016 hafi Guccifer 2.0 skrifað: „þakka fyrir að hafa svarað … finnst þér nokkurð áhugavert í skjölunum sem ég sendi?“
Tveimur dögum síðar bætti Guccifer 2.0 við: „vinsamlega láttu mig vita geti ég hjálpað þér eitthvað … það yrði mér til mikillar ánægju.“
Rússarnir skrifuðu aftur til einstaklingsins í september og vísuðu til skjals sem stolið var frá þingkosninganefnd demókrata (Democratic Congressional Campaign Committee (DCCC)) sem sett hafði verið á netið: „Hvað finnst þér um upplýsingarnar um þátttökulíkanið fyrir alla forsetakosningabaráttu demókrata.“
Einstaklingurinn svaraði „ósköp venjulegt“.
Einstaklingurinn er ekki tilgreindur í ákærunni en Stone, pólitískur ráðgjafi og vinur Trumps í tæpa fjóra áratugi, sagði í skriflegum skilaboðum til breska blaðsins The Guardian: „Ég er líklega sá sem nefndur er í ákærunni. Í ákærum birtast ásakanir sem teljast ósannaðar þar til málaferlum er lokið.“
Ákæruskjalið er alls 29 bls. að lengd og þar er tíundað hvernig Rússar stóðu að því að brótast inn í aðal-netpósthólf demókrata, þar á meðal hjá John Podesta, formanni kosningastjórnar Hillary Clinton, stjórn Demókrataflokksins og DCCC. Stolin tölvubréf birtust á WikiLeaks og var fjallað um þau víða í fjölmiðlum.
Forvitnilegt er að í ákærunni segir að 27. júlí 2016, einmitt sama dag og Trump efndi til blaðamannafundar og hvatti Rússa til að finna týnd tölvubréf Hillary Clinton, reyndu rússneskir tölvuþrjótar í fyrsta sinn að brjótast inn í tölvupósthólf sem einkaskrifstofa hennar notaði. Í skjalinu er ekki látið að því liggja að starfsmenn kosningastjórnar Trumps hafi átt þátt í tilrauninni til að komast í tölvupósthólfið, að Bandaríkjamenn hafi vísvitandi verið í sambandi við rússneska njósnara eða að nokkrum kosningatölum hafi verið breytt með tölvuinnbroti.
Stone heldur fram sakleysi sínu. Hann segir skriflega laugardaginn 14. júlí að það sem hann lýsir sem 24 orða samskiptum við einhvern á Twitter sem segist vera Guccifer 2.0 sé „saklaust með vísan til efnis, samhengis og tímasetningar“.
Hann bætti við: „Þessi samskipti eru að fullu opinber og eru ekki til vitnis um neitt samstarf eða leynimakk með Guccifer 2.0 eða nokkrum öðrum að því er varðar ásakanir um tölvuinnbrot til að ná í bréf DNC [stjórnar Demókrataflokksins] auk þess sem þau áttu sér stað mörgum vikum eftir atburðina sem lýst er í ákæru dagsins í dag og eftir að WikiLeaks hafði birt DNC-efnið.“
Stone hefur lýst sjálfum sér sem dirty trickster sem mætti þýða með orðunum „útsmoginn refur“ og á baki hans er tattóveruð mynd af Richard Nixon, fyrrv. Bandaríkjaforseta. Í svari sínu til The Guardian segir hann: „Í ákærunni er ekki gefið til kynna eða einu sinni ýjað að því að ég hafi á nokkurn hátt komið að því að láta WikiLeaks hafa hin meintu stolnu gögn. Ákæran sýnir að ég átti ekki í neinu leynisambandi við nokkurn hinna ákærðu til að gera meint tölvuinnbrot, dreifa hinum meintu stolnu tölvubréfum eða að ég hafi aðstoðað þá á nokkurn hátt.“
Donald Trump hittir Valdimir Pútin Rússlandsforseta í Helsinki mánudaginn 16. júlí. Álitsgjafar eru sammála um að birting ákærunnar á hendur rússnesku njósnurunum aðeins þremur dögum fyrir fund forsetanna þrengi stöðu Trumps í viðræðunum.
Í Bandaríkjunum hafa demókratar í öldungadeild þingsins og 18 þingmenn þeirra í utanríkismálanefnd fulltrúadeildarinnar hvatt Trump til að hætta við fundinn í Helsinki. Fulltrúadeildarþingmennirnir segja í bréfi til forsetans: „Því miður, með vísan til samfellt vinsamlegra ummæla þinna um Vladimir Pútín, hagsmunaárekstra þinna og árása þinna á nánustu bandamenn okkar, getum við ekki treyst því að þú ræðir af einlægni við rússneska leiðtogann og við hvetjum þig til að aflýsa fundinum.“
Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni sagði: „Trump forseti neitar enn og aftur að fordæma árásir Rússa á lýðræði okkar, jafnvel eftir að sérstaki saksóknarinn Mueller ákærði 12 rússneska njósnara fyrir afskipti af kosningunum 2016, þetta leiðir til þess að fundur hans með Pútín yrði bæði tilgangslaus og hættulegur.“
Chuck Schumer, leiðtogi minnihluta demókrata í öldungadeildinni, sagði: „Trump forseti á að aflýsa fundi sínum með Vladimir Pútín þar Rússar stíga augljós og gegnsæ skref til að sanna að þeir ætli ekki að blanda sér í kosningar í framtíðinni.“
John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblíkana, sem oft gagnrýnir Trump, sagði að hætta ætti við toppfundinn væri Trump ekki tilbúinn til að vekja athygli Pútíns á að „stöðugar árásir hans á Bandaríkin og lýðræðisríki um heim allar“ verði honum „dýrkeyptar“.
Væri Trump ekki undir það búinn að „kalla Pútin til ábyrgðar“ ætti ekki að efna til toppfundarins í Helsinki.
Ekkert hik er varðandi fundinn af hálfu forsetans sem hefur lýst rannsókn Muellers sem „galdraofsóknum“. Trump hefur aldrei fordæmt Pútin vegna ásakana um afskipti Rússa af forsetakosningunum þrátt fyrir niðurstöður opinberra bandarískra rannsakenda. Á blaðamannafundi í Brussel fimmtudaginn 12. júní sagði Trump að hann ætlaði að vekja máls á þessu þegar hann hitti Pútín. „Hann kann að neita því,“ sagði Trump. „Ég meina, þetta er eitt af þessum málum. Svoþað eina sem ég gert er að segja: Gerðir þú það? og Ekki gera það aftur.“
Fyrstu viðbrögð Trumps við ákærunum laugardaginn 14. júlí voru að skella skuldinni á forvera sinn Barack Obama: „Þessar sögur sem þið heyrðuð um Rússana 12 í gær gerðust í stjórnartíð Obama ekki í stjórnartíð Trumps,“ sagði hann á Twitter frá golfhóteli sínu í Skotlandi. „Hvers vegna gerðu þeir ekki eitthvað í málinu, einkum eftir að skýrt frá því að FBI [alríkislögreglan] hefði látið Obama vita í september, fyrir kosningarnar?“
Rússar segja að efnisatriði ákærunnar sanni ekki að njósnastofnun rússneska hersins hafi staðið að baki tölvuárásunum á demókrata eða yfirleitt að um nokkra slíka árás hafi verið að ræða. „Það er augljós að með þessum fölsunum er gerð tilraun til að eyðileggja andrúmsloftið fyrir rússnesk-bandaríska toppfundinn.“ sagð rússneska utanríkisráðuneytið í yfirlýsingu föstudaginn 13. júlí.