Home / Fréttir / Skriðdrekar á eftirlitsferðum um Gotland

Skriðdrekar á eftirlitsferðum um Gotland

Sænski herinn notar nú skriðdreka til eftirlits á Gotlandi.

Sænsk stjórnvöld ákváðu föstudaginn 14. janúar að bryndrekar og vopnaðir hermenn skyldu fara um og halda uppi eftirliti á götum Visby, stærsta bæjarins á Gotlandi, eyjunni á Eystrasaltinu fyrir vestan Eistland. Gripið var til þessara óvenjulegu aðgerða vegna aukinna „umsvifa Rússa“ að sögn hersins. Sjá mátti tugi hermanna og skriðdreka fara um götur Visby.

Ákvörðunin var tekin þegar þrjú rússnesk landgönguskip sáust í vikunni sigla vestur Eystrasalti í áttina að Stórabelti í Danmörku. Litið er á ferðir skipanna sem lið í vaxandi spennu sem Rússar hafa stofnað til gagnvart NATO. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði í tölvubréfi til AFP-fréttastofunnar: „Herinn grípur til þeirra aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi Svíþjóðar og til að sýna getu okkar til að vernda Svíþjóð og sænska hagsmuni.“

Þótt Rússar stefnt tugum þúsunda þungvopnaðra hermanna að landamærum Úkraínu neita stjórnvöld í Moskvu að fyrir þeim vaki að hefja innrás. Þetta sé aðeins svar þeirra við aðgerðum á vegum NATO á áhrifasvæði þeirra.

Svíar drógu mjög saman herafla sinn við hrun Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins. Þeir breyttu hins vegar um stefnu eftir að Rússar lögðu undir sig Krímskaga árið 2014. Herskylda var innleidd að nýju í Svíþjóð árið 2017 og þeir endurreistu herstöð sína á Gotlandi árið 2018.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …