Home / Fréttir / Skotfæraskortur Úkraínuhers auðveldar Rússum landvinninga

Skotfæraskortur Úkraínuhers auðveldar Rússum landvinninga

Andstaða þingmanna repúblikana á Bandaríkjaþingi gagnast nú rússneska hernum á vígvellinum í Úkraínu. Stórskotalið Úkraínuhers skortir fallbyssukúlur til að halda Rússum í skefjum við bæinn Avdijivka í austurhluta Úkraínu. Nái Rússar bænum á sitt vald er það stærsti sigur þeirra frá því að barist var um Bakhmut.

„Óvinurinn er aðeins 1,2 km frá þessum alkunna stað – leiðinni inn í bæinn,“ skrifaði úkraínski blaðamaðurinn Jurij Butusov mánudaginn 5. febrúar. Þriðjudaginn 6. febrúar sagði úkraínski herbloggarinn Deep State: „Óvinurinn sækir fram í norðurhluta Avdijivka.“

Mánuðum saman hafa úkraínskir hermenn hindrað vetrarsókn Rússa til Avdijivka. Nú syrtir hins vegar alvarlega í álinn. Stærsti sigur Rússa um langt skeið virðist í sjónmáli.

„Sífellt fleira bendir til þess að (Avdijivka) verði fyrsti bærinn sem fellur í sókn Rússa síðan þeir sigruðu í Bakhmut í maí í fyrra,“ segir Yaroslav Trofimov, fremsti utanríkisfréttaritari The Wall Street Journal.

Skýringin á undanhaldi Úkraínuhers er alvarlegur skortur á skotfærum, þar á meðal fallbyssukúlum.

Forbes segir að þingmenn og aðrir forystumenn repúblikana í Bandaríkjunum hafi í marga mánuði komið í veg fyrir bandaríska aðstoð til Úkraínu og þeir beri því mikla ábyrgð á skotfæraskortinum.

Fréttaritari The Wall Street Journal er sömu skoðunar.

Í tæp tvö ár hafa Bandaríkjamenn skipt sköpum fyrir Úkraínumenn með að útvega þeim vopn í stríðinu gegn Rússum. Það munar því um minna þegar engin aðstoð berst frá Bandaríkjunum.

Neyðarástand ríkir innan stórfylkis Úkraínu sem á að verja bæinn. Liðsstyrkur berst ekki til að leysa þreytta hermenn af hólmi og skotfærabirgðir eru næstum á þrotum.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) sagði 5. febrúar að innan hers Úkraínu hefði verið gripið til skömmtunar á fallbyssukúlum. Af því leiddi að Úkraínuher gæti aðeins beitt fallbyssum gegn her Rússa sækti hann fram í stórri fylkingu.

Svo virðist sem Rússar nýti sér þetta og sendi nú aðeins fámenna hópa gegn óvini sínum. Þeir geti laumast fram hjá stórskotaliðsvörnum Úkraínuhers.

Avdijivka hefur verið í fremstu víglínu í austri síðan 2014 og allar götur síðan hefur Úkraínuher haldið bænum gegn árásum Rússa.

Bærinn er við landamæri Donetsk sem er svæði sem Rússar hernámu á sínum tíma. Nái Rússar Avdijivka opnar það þeim leið til sóknar inn á önnur svæði í Donetsk.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …