
Lögregluyfirvöld í Berlín sögðu föstudaginn 29. janúar að brotthvarf ungrar rússneskrar stúlku sem skapað hefur spennu í samskiptum Þjóðverja og Rússa mætti rekja til skólakvíða hennar. Hún hefði ekki treyst sér að fara í skólann en spunnið sögu um að þrír arabar hefðu rænt sér og nauðgað.
Lögreglan segir að upplýsingar úr farsíma stúlkunnar sýni að hún hafi dvalist heima hjá vini sínum þær 30 stundir sem hún var talin týnd. Þá fundust ýmsar eigur stúlkunnar einnig á heimili vinarins, 19 ára gamals pilts. Lögregla segir að hann hafi játað að stúlkan hafi dvalist hjá sér nóttina 11. til 12. janúar.
„Unga stúlkan vildi fela sig í húsi hans vegna vandræða sinna í skólanum,“ sagði Martin Steltner talsmaður saksóknara í Berlín við AFP-fréttastofuna. Ekkert benti til kynferðisbrots og vinur stúlkunnar sætti ekki neinni rannsókn.
Skömmu eftir 12. janúar fór stúlkan með foreldrum sínum til lögreglu og lagði fram kæru um að sér hefði verið rænt af þremur „erlendum“ karlmönnum á járnbrautarstöð í austurhluta Berlínar. Þeir hefðu beitt sig valdi, farið með sig inn á heimili sitt og nauðgað sér. Nú er sannað að þetta er uppsuni ef marka má lögregluna í Berlín.
Á málinu er önnur vídd. Þegar spurðist að ung. rússnesk stúlka hefði lagt fram kæru í Berlín um að hafa verið nauðgað af þremur hrottafengnum aröbum greip um sig mikil reiði meðal fólks af rússneskum uppruna í norðaustur hluta Berlínar og á samfélagsmiðlum. Þýski ný-nazistaflokkurinn (NPD) greip tækifærið til árasa á yfirvöld, rússneskir fjölmiðlamenn fóru mikinn og síðan blandaði sjálfur utanríkisráðherra Rússlands sér í málið.
Þriðjudaginn 26. janúar efndi Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, til reglulegs blaðamannafundar síns í upphafi nýs árs og gaf til kynna að þýsk yfirvöld vildu þagga málið niður. Þetta mundu yfirvöld í Moskvu ekki líða og þau hefðu stofnað til samstarfs við lögfræðing fjölskyldu stúlkunnar. „Það er ljóst að stúlkan hvarf í 30 klukkustundir – örugglega ekki sjálfviljug,“ sagði utanríkisráðherrann.
Lavrov sagðist harma að fréttir af hvarfi Lísu, eins og Rússar kalla stúlkuna, hefðu „af einhverjum ástæðum verið faldar svona lengi“.
Miðvikudaginn 27. janúar svaraði Steffen Seibert, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, og sagði: „Það er engin ástæða til, raunar óviðunandi, að þetta atvik sé notað í pólitískum tilgangi.“ Seibert neitaði að fjalla beint um málið sjálft en bætti við: „Eitt get sagt með fullvissu að Þýskaland er réttarríki. Sérhver einstaklingur getur treyst sjálfstæðu réttarvörslukerfi okkar og starfsmenn kerfisins verða að geta rannsakað mál á verksviði sínu án afskipta annarra.“
Sergei Lavrov utanríkisráðherra lét ekki við það sitja sem hann sagði á blaðamannafundi sínum í Moskvu þriðjudaginn 26. janúar. Hann var fimmtudaginn 28. janúar í Aschgabat, höfuðborg Turkmenistan, hélt blaðamannafund og sagði: „Við blöndum okkur ekki í innri mál annarra landa.“ Öðru máli gegndi um Þjóðverja þegar mannréttindamál væru á döfinni. „Þýskir vinir okkar segja – umtalsvert oftar en við – álit sitt á ýmsum hliðum samfélagsmála í Rússlandi, ekki aðeins á sviði mannréttindamála heldur einnig á öðrum sviðum,“ hafði Interfax-fréttastofan eftir honum.
Lavrov sagði að máli Lísu hefði skort gagnsæi, í samræmi við „allar reglur hins siðmenntaða heims“ hefði strax átt að láta rússnesk yfirvöld vita um þetta atvik. Fyrstu fréttir um það hefðu menn í Moskvu fengið frá „samtökum rússneskumælandi manna“ í Þýskalandi en ekki frá réttum yfirvöldum þar. „Einmitt þess vegna hefur þessi staða myndast […] Þar sem um ríkisborgara Rússland er að ræða getum við einfaldlega ekki beðið eftir niðurstöðu rannsóknarinnar,“ sagði ráðherrann.
Hann sagðist viss um að minni hætta væri á misskilningi ef rétt þýsk yfirvöld miðluðu nauðsynlegum upplýsingum. Því fyrr sem rússnesk yfirvöld vissu um „svo alvarlega stöðu“ borgara sinna þeim mun betra yrði það fyrir tvíhliða samskipti ríkjanna. Þá þyrftu ekki að vakna spurningar um áróður eða íhlutun í innri málefni.
Þessi ummæli rússneska utanríkisráðherrans urðu til þess að Berthold Kohler, útgefandi Frankfurter Allgemeine Zeitung, sagði í blaði sínu að „langbesti brandarinn á karnivalhátíðum þessa árs“ kæmi frá Moskvu. Þegar rússneski utanríkisráðherrann segði: „Við blöndum okkur ekki í innri mál annarra landa.“
„Hver getur þó enn hlegið að ósvífninni sem í þessari fullyrðingu felst?“ spyr útgefandinn. „Ekki Úkraínumenn, ekki Georgíumenn, ekki Sýrlendingar, ekki Eystrasaltsþjóðirnar, ekki Pólverjar og ekki fjölmargar aðrar þjóðir.“
Útgefandinn bendir á að Lavrov segi að Rússar geti ekki beðið eftir niðurstöðu rannsóknar þýsku lögreglunnar. Þar hefði hann getað vitnað beint í Pútín-kenninguna: Hvar sem Rússar eru í vandræðum ….
Þá segir Berthold Kohler:
„Væri Þýskaland minna ríki í nágrenni Rússlands hlytu allar viðvörunarbjöllur í Berlín nú að hringja hátt, þá er ljóst að hér í landinu er „minnihluti“ sem Kremlverjar geta virkjað með áróðursvél sinni. Ekki er unnt með skýrari hætti en þessum að sjá hvernig rússnesk stjórnvöld beita undirróðursstefnu sinni gagnvart Þýskalandi og ESB.“