
Pólska ríkisstjórnin bregst kuldalega við dómi ESB-dómstólsins í Lúxemborg mánudaginn 20. nóvember um að hætt verði skógarhöggi í Bialowieza-skógi. Verði stjórnin ekki við kröfu dómaranna um að hætta skógarhöggi innan 15 daga frá uppkvaðningu dómsins ber henni að greiða 100.000 evrur í dagsektir þar til bannið er virt.
Stjórnin segir að hún ætli að komast hjá því að greiða dagsektirnar enda sé heimild hennar til skógarhöggsmanna algjörlega lögleg. Með henni sé gætt „almannaöryggis“. Skógurinn er á heimsminjaskrá UNESCO.
Jan Szyszko, umhverfisráðherra Póllands, fór undan í flæmingi þegar hann var spurður hvort stjórnin ætlaði að fara að fyrirmælum dómstólsins. Hann var spurður um málið á ráðstefnu og svaraði aðeins: „Hvers vegna ertu að tala um skógarhögg?“ Í samtali við Wnet-útvarpsstöðina sagði hann að ríkisstjórnin færi „100%“ að fyrirmælunum.
Ráðherrann sagði enga hættu á að Pólverjar þyrftu að borga sektina þar sem þeir færu þegar að ESB-lögum og niðurstöðu dómstólsins. Hann áréttaði að tré væru aðeins felld í Bialowieza til að tryggja öryggi gesta.
Af hálfu ESB hefur verið sagt: „Pólverjar verða strax að hætta grisjun skógarins í Bialowieza nema í sérstökum tilvikum þar sem hún er stranglega nauðsynleg til að tryggja almannaöryggi.“
Pólverjar rökstyðja aðgerðir sínar með túlkun á orðinu „nauðsynleg“. Szyszko segir að ekki eigi að nota orðið „skógarhögg“ til að lýsa því sem gert er í Bialowieza. Ráðuneytið hefur þess í stað talað um „hreinlætis-grisjun“ eða „aðgerðir“.
Rök ríkisstjórnarinnar eru meðal annars að með aðgerðum sínum sporni hún gegn útbreiðslu á áður óþekktu sníkjudýri sem leggist á börk grenitrjáa í skóginum. Þá sé henni einnig annt um öryggi þeirra sem ganga um skóginn þar sem tré hafa rýrnað.
Aðgerðasinnar gera harkalegar athugasemdir við afstöðu stjórnvalda. Þeir hafa deilt við þau frá því að ákveðið var að þrefalda skógarhögg í Bialowieza í mars 2016.
Nú í nóvember handtók pólska lögreglan 22 fyrir að „raska almannafriði“ eftir að þeir höfðu efnt til mótmælasetu við skrifstofur pólsku skógræktarinnar. Þá var lögreglan sökuð um að hafa beitt valdi við að fjarlægja um 50 manns en sumir í hópnum höfðu fest sig með keðjum við garðhlið.
Katarzyna Jagiello, frá Grænfriðungum, sagði við blaðamenn fyrir fram hús umhverfisráðuneytisins þriðjudaginn 21. nóvember að áfram væri stundað skógarhögg í Bialowieza og trén væru sett á markað.
Pólski utanríkisráðherrann Witold Waszczykowski sagði hins vegar við RMF-útvarpsstöðina að stjórnvöld mundu gera allt til að komast hjá sektargreiðslum.
Heimild: dw