Home / Fréttir / Skipulega vegið að netfrelsi í Rússlandi

Skipulega vegið að netfrelsi í Rússlandi

Mólmælafundur gegn aðför að netfrelsi í Moskvu.
Mólmælafundur gegn aðför að netfrelsi í Moskvu.

Rússneskir þingmenn stíga nú lokaskrefin við afgreiðslu á lagafrumvarpi sem miðar að því að gjörbreyta reglum um notkun internetsins í Rússlandi. Mótmælendur frumvarpsins hafa efnt til útifunda í Moskvu, St. Pétursborg og annars staðar í landinu. Þeir segja að verði það að lögum einangrist Rússar og öll þjóðin sæti ritskoðun.

Þúsundir mómælenda komu saman í Moskvu laugardaginn 9. mars til að lýsa vanþóknun á þessari aðför rússneskra yfirvalda að netsamskiptum. Að minnsta kosti 16 voru handteknir áður en mótmælin hófust en yfirvöld höfðu heimilað þau. Átta þeirra voru teknir fyrir að nota „fljótandi búnað“ þegar þeir slepptu bláum blöðrum til að árétta skoðun sína.

Talið er fullvíst að þingmenn samþykki frumvarpið en gagnrýnendur þess segja það einangra Rússa, leiði til ritskoðunar og reisi „net-járntjald“ sem skilji Rússa frá öðrum heimshlutum.

Einn mótmælenda bar spjald með mynd af Pavel Durov, Rússa sem þróaði dulkóðuðu skilaboðaþjónustuna Telegram. Rússnesk yfirvöld hafa beitt Durov þrýstingi til að knýja hann til að afhenda sér lykilinn að dulkóðuninni. Hann fer ekki leynt með stuðning sinn við mótmælendur frumvarpsins gegn netsamskiptum.

Höfundar frumvarpsins segja að með því verði komið á fót „varnarkerfi til að tryggja að netþjónustur geti starfað til langrar framtíðar við stöðugleika í Rússlandi“.  Lagt er til að komið verði á fót miðstöð „til viðnáms og eftirlits gegn eyðileggjandi netumferð“ í landinu.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir „æfingum“ sem eiga að leiða í ljós hvort reka megi einangrað net í Rússlandi. Artjom Kozljuk, forvígismaður Roskomsvoboda, samtaka í þágu netfrelsins, segir að með lögunum verði „unnt að takmarka réttindi og frelsi við netnotkun“.

Hann sagði reynslu Norður-Kóreumanna sýna að unnt væri að halda úti einangruðu neti. Það væri hins vegar dýrt og flókið að fara að fordæmi Kínverja, beita síum á netsamskipti og reisa eldvegg í því skyni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rússneskir þingmenn gera aðför að netinu. Árið 2014 samþykktu þeir lög sem skyldaði bloggara með meira en 3.000 heimsóknir á dag til að skrá sig sem fjölmiðil og þar með lúta opinberu eftirliti. Litið var á bloggara-lögin svonefndu sem aðför að aðgerðasinnum þegar þau voru sett.

Heimild: dw

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …