Home / Fréttir / Skiptar skoðanir meðal NATO-þjóða á aðgerðum gagnvart Úkraínu

Skiptar skoðanir meðal NATO-þjóða á aðgerðum gagnvart Úkraínu

Fánar Úkraínu og NATO
Fánar Úkraínu og NATO

Leiðtogarnir á fundinum í Elmau-höll í Bæjaralandi um síðustu helgi undir G7-merkinu sýndu festu gagnvart Rússum. Barack Obama Bandaríkjaforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari lögðu sig fram um að sýna hve náið samstarf þeirra væri þótt allir viti að þar sé ekki allt endilega sem sýnist. Nú hefur bandaríska könnunarfyrirtækið Pew Research Center birt niðurstöður sem sýna að því fer fjarri að vestrænar þjóðir séu á einu máli um hvernig tekið skuli á Úkraínu-deilunni. Þegar spurt var hvort Úkraína ætti að ganga í NATO sögðu 65% Kanadamanna já, 62% Bandaríkjamanna en aðeins 36% Þjóðverja og 35% Ítala.

Almennt er skuldinni af Úkraínu-átökunum skellt á Rússa og þeir eru jafnframt taldir ógna öryggi NATO en því hafnar Vladimír Pútín Rússlandsforseti alfarið. Álit manna á Pútín hefur minnkað á Vesturlöndum en stóraukist í Rússlandi, þar sem næstum 90% segjast hafa álit á honum. Þá sýna kannanir að ættjarðarást Rússa hefur magnast, nú segjast 63% Rússa hafa „mjög gott“ álit á landi sínu árið 2013 var þessi hlutfallstala 34%. Minnihluti Rússa hefur jákvæða afstöðu til Evrópusambandsins (31%) og Bandaríkjanna (15%). Talið er að þarna ráði miklu hinn neikvæði áróður rússneskra stjórnvalda gegn Vesturlöndum.

Pew gerði könnun sína í sex af G7-ríkjunum í Evrópu og N-Ameríku og auk þess á Spáni, í Póllandi, Rússlandi og Úkraínu. Niðurstöðurnar voru birtar miðvikudaginn 10. júní. Hér vísað til fréttar í Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) um niðurstöðurnar.

Þegar spurt var um efnahagsaðstoð við Úkraínu var mikill meirihluti í sjö af átta NATO-löndum hlynntur henni, aðeins á Ítalíu var stuðningurinn innan við 50%, það er 44%. Aðeins 37% Ítala hafa áhuga á aðild Úkraínu að ESB en 60% Pólverja og 53% Spánverja og Breta. Þegar spurt var hvort láta ætti Úkraínumönnum í té vopn voru 50% Pólverja hlynntir því, 46% Bandaríkjamanna og 40% Frakka en aðeins 22% Ítala og 19% Þjóðverja.

Spurt var hvað gera skyldi ef til hernaðarátaka kæmi milli Rússa og einhverrar NATO-þjóðar, hvort virkja ætti 5. grein Atlantshafssáttmálans og veita viðkomandi þjóð hernaðarlegan stuðning. Svörin voru enn á ný ólík eftir löndum: 56% Bandaríkjamanna vilja virkja greinina, 53% Kanadamanna, 49% Breta, 48% Pólverja og 48% Spánverja. Í Frakklandi (53%), á Ítalíu (51%) og í Þýsklandi (58%) er meirihlutinn gegn því að virkja 5. greinina og veita annarri NATO-þjóð hernaðarlegan stuðning sé á hana ráðist. Á hinn bóginn vænti mikill meirihluti – að jafnaði um 75% – þess að Bandaríkjamenn beittu hernaðarmætti sínum til að verja hina aðþrengdu þjóð.

Þegar NATO-þjóðir eru spurðar um traust í garð Pútíns er það mest meðal Þjóðverja (23%) og 27% Þjóðverja hafa jákvæða afstöðu til Rússlands en 30% Frakka.

Stuðningur Þjóðverja við NATO hefur minnkað frá því sem áður var. Árið 2009 höfðu um 73% Þjóðverja jákvæða afstöðu til NATO, árið 2015 er þessi tala komin niður í 55% og er það rakið til átakanna í Úkraínu sem staðið hafa í rúmt ár.

Í FAZ segir að athygli veki hve mikill munur sé á afstöðu Bandaríkjamanna annars vegar og Þjóðverja hins vegar. Bandaríkjamenn vilji almennt sýna Rússun hörku en Þjóðverjar vilji fara hægt í sakirnar einkum þegar spurt er um afhendingu vopna og aðild að NATO og ESB. Á hinn bóginn vilja um 75% Þjóðverja veita Úkraínumönnum efnahagsaðstoð en 62% Bandaríkjamanna. Aðeins 29% Þjóðverja vilja falla frá efnahagsþvingunum gegn Rússum.

Pew Research Center í Washington fékk 11.116 svarendur í átta NATO-ríkjum: Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Kanada, Póllandi, Spáni og Þýskalandi auk Rússlands og Úkraínu. Könnunin var gerð frá 6. apríl til 15. maí 2015.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …