Home / Fréttir / Skipaumferð um Norðurleiðina eykst vegna Jamal-gassins – Snjódrekinn í nágrenni Íslands

Skipaumferð um Norðurleiðina eykst vegna Jamal-gassins – Snjódrekinn í nágrenni Íslands

Þetta kort er úr grein eftir Malte Humpert. Annars vegar sést leið gasflutningaskips frá Noregi til S-Kóreu (blá leið) og hins vegar rauð leið kínverska ísbrjótsins Snjódrekans.
Þetta kort er úr grein eftir Malte Humpert. Annars vegar sést leið gasflutningaskips frá Noregi til S-Kóreu (blá leið) og hins vegar rauð leið kínverska ísbrjótsins Snjódrekans. Þá eru einnig merkt inn þrjú kínversk skip fyrir utan Snjódrekann, Xue Long.

Siglt er um Norðurleiðina, það er leiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland, frá síðari hluta júní fram í nóvember ár hvert. Blaðamaðurinn Malte Humpert hjá High North News segir miðvikudaginn 23. ágúst á vefsíðunni Arctic Now að í ár hafi rúmlega 550 skip fengið heimild frá rússneskum yfirvöldum til að sigla þessa leið. Í fyrri hluta ágúst hafi 100 skip verið þar á ferð dag hvern. Í þeim hópi var gasflutningaskipið Christophe de Margerie sem sagt hefur verið frá hér á síðunni.

Humpert sergir að Christophe de Margerie sem flutti jarðgas (LNG) frá Hammerfest í Noregi til Suður-Kóreu hafi farið Norðurleiðina á mettíma, 6,5 dögum. Í greininni er vitnað í Arild Moe, sérfræðing við norsku Fridtjof Nansen stofnunina sem segir:

„Með ferð sinni markar Christophe de Margerie vissulega tímamót í siglingum á Norðurleiðinni. Flutningamagnið mun aukast mjög eftir að gasframleiðslan verður komin á fullan skrið hjá Jamal LNG árið 2020 og líklegt er að síðan verði ráðist í nýja jarðgasvinnslu með Arctic LNG 2. Olíuhöfnin í Novoj kom í raun til sögunnar árið 2016 þegar útflutningur hófst þaðan.“

Humpert bendir á að fyrir nokkrum árum hafi rússnesk yfirvöld og margir sérfræðingar á sviði sjóflutninga talið líklegt að Norðurleiðin yrði alþjóðleg tengileið milli Atlantshafs og Kyrrahafs. Moe segir að nú beinist öll athyglin hins vegar að útskipunarhöfnum á leiðinni vegna olíu- og gasvinnslu í Ob-flóa og á Jenisei svæðinu.

Rússneskir embættismenn telja að framleiðsla á olíu og gasi á þessu svæði verði 10 sinnum meiri árið 2025 en hún var árið 2016 eða um 75 milljón tonn á ári.

Moe bendir á að undanfarin ár hafi verið mikil skipaumferð á vesturhluta Norðurleiðarinnar vegna framkvæmda á vegum Jamal LNG og vegna vinnu við að gera höfn í bænum Sabetta. Mörg skipanna sem taka þátt í þessum verkefnum  séu „tíðir gestir“ á þessum slóðum og verði það líklega áfram eftir að framkvæmdum lýkur í Sabetta.

Kínverska skipafélagið COSCO á mörg skipanna sem eru „tíðir gestir“ þarna. COSCO sendi fimm skip norðurleiðina árið 2016 með byggingarefni og annað vegna framkvæmdanna í Sabetta. Í ár hafa 11 kínversk skip fengið leyfi til að athafna sig á Norðurleiðinni, fjögur þeirra eru í eigu COSCO.

Í grein sinni vitnar Humpert til Miu Bennett, doktorsnema við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, og minnir á það sem hún hefur sagt um að Norðurleiðin sé ein þriggja meginsiglingaleiða innan ramma stefnu kínversku viðskiptaáætlunarinnar sem kennd er við belti og braut. Stofnaður hefur verið svonefndur Silkileiðarsjóður til að auðvelda kínverskum stjórnvöldum að styðja við bakið á fyrirtækjum og framtaki sem þau telja falla að nýju áætluninni. Bennett segir að sjóðurinn hafi eignast 9,9% í Jamal LNG með því að leggja einn milljarð dollara til verkefnisins.

Humpert segir að athugun mánudaginn 21. ágúst sýni fjögur kínversk skip á eða við Norðurleiðina. Þetta eru The Hai Yang Shi You 720 (IMO 9567829) olíuleitarskip á Kara-hafi fyrir dótturfyrirtæki kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC; Nan Hai Ba Hao (8752001) aðstoðarskip einnig í Kara-hafi. Xiang He Kou (9752656) þungaflutningaskip á vegum COSCO Hong Kong, dótturfyrirtækis COSCO, á vesturleið um Barentshaf eftir að hafa verið í Sabetta 14. ágúst.

Fjórða kínverska skipið er ísbrjóturinn Snjódrekinn, Xue Long (8877899), frá kínversku heimskautarannsóknarstöðinni. Hann var 21. ágúst á siglingu milli Jan Mayen og Noregs. Hann hóf 83 daga ferð sína um norðurskautið í Kína 20. júlí. Hann sigldi inn um Beringssund og fyrir austan Norðurpólinn áður en hann hélt norður fyrir Svalbarða. Talið er að hann sigli nú í vestur og til Kína eftir Norðvesturleiðinni, fyrir norðan Kanada. Snjódrekanum hefur ekki áður verið siglt þessa leið. Kínverskir ríkisfjölmiðlar segja að 96 vísinda- og rannsóknarmenn um borð sí skipinu beini athygli sinni að lífi í sjónum, veðurfræði, jarðfræði og mengun hafsins.

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …