Home / Fréttir / Skipafélag í vanda vegna dráps á ísbirni

Skipafélag í vanda vegna dráps á ísbirni

 

Þetta er ísbjörninn sem var felldur á dögunum.
Þetta er ísbjörninn sem var felldur á dögunum.

Hart hefur verið sótt að þýska skipafélaginu Hapag-Lloyd Cruises í netheimum frá því laugardaginn 28. júlí þegar fréttir bárust um að öryggisvörður hefði skotið á ísbjörn og drepið hann. Skemmtiferðaskipið Bremen var við Sjuøyene nyrstu eyjar Svalbarða-eyjaklasans að sögn norskra aðila. Skipafélagið segir atvikið hafa gerst á Spitzbergen, stærstu eyjunni á Svalbarða-klasanum.

Sunnudaginn 29. júlí lýsti Hapag-Lloyd Cruises yfir að félagið „harmaði mjög“ atvikið og áréttaði að aðeins væri gripið til skotvopna gegn ísbirni í sjálfsvörn.

Í tilkynningu frá skipafélaginu segir að fjögurra manna öryggissveit hefði verið send í land til að tryggja öruggt svæði fyrir farþega á skipinu sem sigldu í kjölfar varðanna. Þá birtist skyndilega ísbjörn og réðst á einn varðanna án þess að særa hann alvarlega. Fékk vörðurinn höfuðáverka en var ekki í lífshættu. Því miður hafi aðstæður verið þannig að óhjákvæmilegt hafi verið að drepa ísbjörninn í sjálfsvörn. Segist félagið „harma mjög“ þetta atvik auk þess sem það geri sér vel grein fyrir ábyrgð sinni þegar ferðast sé til svæða þar sem umhverfi sé viðkvæmt og það sýni náttúru og villtu dýralífi fulla virðingu.

Öryggisvörðurinn var fluttur með þyrlu til Longyearbyen, aðsetri norskra stjórnvalda á Svalbarða, og er líðan hans eftir atvikum.

Þrátt fyrir skýringar sínar sætti skipafélagið harðri gagnrýni á netinu. Margir hvöttu til þess að hætt yrði viðskiptum við félagið.

Gamanleikarinni Ricky Gervais sagði á Twitter: „„Við skulum fara of nálægt ísbirninum á heimaslóð hans og síðan drepa hann, komi hann of nálægt.“ Hálfvitar.“ Aðrir sökuðu félagið um að nýta sér ísbirni í ágóðaskyni.

Hapag-Lloyd Cruises segir á hinn bógin að farþegar af skipum þess fari ekki í land á þessum slóðum til að skoða ísbirni. Lýsir félagið aðstæðum á Spitzbergen þar sem aðeins sé unnt að fara í land á sárafáum stöðum. Ekki sé fylgst með ísbjörnum á þessum stöðum heldur aðeins frá skipsfjöl, í öruggri fjarlægð frá þeim. Sjái undanfarar farþeganna ísbirni á þeim slóðum þar sem hugað sé að landgöngu sé strax hætt við hana.

Skemmtiferðaskipið Bremen er frá 1990 og getur flutt 155 farþega og 100 manna áhöfn.  Hapag-Lloyd Cruises segist vinna að rannsókn atviksins með norskum yfirvöldum.

Ferðum farþegaskipa umverfis Svalbarða hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Þeim fjölgar enn því að tæplega 20 skemmtiferðaskip til siglinga í ís eru nú í smíðum.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …