Home / Fréttir / Skilríki Pútíns fundust í skjalasafni Stasi

Skilríki Pútíns fundust í skjalasafni Stasi

 

Stasi-skilríki Pútíns.
Stasi-skilríki Pútíns.

Stasi gaf á sínum tíma út eigin skilríki fyrir Vladimar Pútín. Stasi er skammstöfun á heiti illræmdrar njósna- og öryggisstofnunar austur-þýskra kommúnista. Skilríkin fundust nýlega. Þau sanna ekki endilega að Pútín hafi starfað innan Stasi.

Skilríkin eru dagsett á þeim tíma þegar Pútín starfaði sem rússneskur KGB-foringi í borginni Dresden í Austur-Þýskalandi.

Konrad Felber, forstjóri skjalastofnunar Stasi, sagði þriðjudaginn 11. desember við þýska blaðið Bild að tilvist þessara skjala sem voru á hendi Pútíns frá árslokum 1985 til ársloka 1989 hefði verið „algjörlega óþekkt“ þar til núna.

Fjölmiðill hafði óskað eftir annars konar skjölum en við leit þeirra fundust þessi persónuskilríki fyrir tilviljun, sagði Felber. Hann sagði að með því að sýna þau hefði Pútín auðveldlega getað heimsótt allar starfsstöðvar Stasi sem þýddi „ekki sjálfkrafa“ að hann hefði starfað fyrir Stasi.

Með skilríkin undir höndum hefði hins vegar verið auðveldara en ella fyrir hann að fá þýska njósnara til að starfa fyrir sovésku öryggislögregluna KGB án þess að segjast sjálfur vera KGB-maður.

Pútín var á vegum KGB í Dresden frá 1985 til 1989 þegar Austur-Þýskaland varð að engu. Hann var í nágrenni höfuðstöðva Stasi 5. desember 1989 þegar um 5.000 manns komu saman fyrir framan þær og kröfðust þess að fá Stasi-skjöl afhent. Nokkrir mótmælendur héldu að húsi KGB í nágrenninu. Þar var Pútín með fleiri starfsmönnum KGB sem höfnuðu kröfum mótmælenda. Ekki kom til átaka en Pútín hefur sagt að hann hafi gripið til skammbyssu til að hræða fólkið á brott.

Síðar varð Pútín yfirmaður FSB í Rússlandi, það er helsta arftaka KGB. Hann var fyrst kjörinn forseti Rússlands árið 2000.

 

Njósnaforinginn Pútín.
Njósnaforinginn Pútín.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …