Home / Fréttir / Skemmtikraftar fyrir rússneska hermenn – Shoigu sagður í heimsókn

Skemmtikraftar fyrir rússneska hermenn – Shoigu sagður í heimsókn

Þessi mynd á að sýna Sergeij Shoigu varnarmálaráðherra í þyrluferð yfir hernum við Úkraínu.

Rússneskir tónlistarmenn, óperusöngvarar og sirkusfólk verður sent til að létta lund rússneskra hermanna við víglínuna í Úkraínu.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að listamennirnir mundu mynda tvö „skapandi framlínu-stórfylki“ og einbeita sér að því að veita hermönnunum „siðferðilegan, stjórnmálalegan og sálrænan stuðning“.

Með þessu er litið til fordæmis frá rauða her Stalíns sem virkjaði 2.000 „skapandi stórfylki“ til að efla baráttuþrek hermannanna í annarri heimsstyrjöldinni. Markmiðið er einnig að sýna hermönnunum meiri umhyggju eftir að ruglingslega herútkallið og röð ósigra í Úkraínu ýtti undir almenna reiði.

Föstudaginn 16. desember fóru herforingjar yfir stöðuna við víglínur Rússa með Vladimir Pútin. Laugardaginn 17. desember heimsótti rússneski varnarmálaráðherrann, Sergeij Shoigu, einingar hersins á hernumdu svæðunum í suðurhluta Úkraínu.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sem kallar innrásina „sérstaka hernaðaraðgerð“ sagði í tilkynningu að Shoigu hefði flogið yfir rússneska heraflann og kynnt sér aðstæður fremst á athafnasvæði hersins í sérstöku hernaðaraðgerðinni.

Ráðuneytið sagði að ráðherrann hefði rætt við hermenn „í fremstu línu“ og í „stjórnstöð“

Á stuttu myndskeiði frá ráðuneytinu mátti sjá Shoigu í herþyrlu og nokkrar loftmyndir af eyðilegu landi.

Úkraínumenn segja óljóst hvenær Shoigu hafi verið þarna á ferð og heimsótt hermenn á vígvellinum.

Undanfarið hafa Rússar lagt áherslu á að eyðileggja sem mest af aflstöðvum og kyndistöðvum í Úkraínu til að skapa sem erfiðastar aðstæður fyrir almenna borgara í Úkraínu í vetrarkuldum.

Tilkynnt var sunnudaginn 18. desember í Kyív að tekist hefði að virkja kyndistöðvar fyrir borgarbúa að nýju og lagt er höfuðkapp á að gera sem fyrst við skemmdir á raforkukerfinu um alla Úkraínu.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …