Home / Fréttir / Skemmdarverk voru unnin á gasleiðslunum segja Svíar

Skemmdarverk voru unnin á gasleiðslunum segja Svíar

Gasflekkurinn á Eystrasalti.

Sænskir embættismenn staðfestu föstudaginn 18. nóvember að sprengingarnar sem ollu tjóni á Nord Stream gasleiðslunum í Eystrasalti 26. september hefðu verið skemmdarverk. Rússar eiga leiðslurnar og áttu þær að flytja jarðgas frá Rússlandi til Þýskalands.

„Við rannsóknir fundu sýni af sprengiefni á ýmsum erlendum hlutum,“ sem fundust á svæðinu við sprengingarnar, sagði Mats Ljungqvist saksóknari í yfirlýsingu, hann stjórnar fyrstu rannsókninni á svæðinu.

Ljungqvist sagði að haldið yrði áfram tæknilegum athugunum til að „komast mætti að enn traustari niðurstöðum varðandi atvikið“.

Sænska saksóknaraembættið sagði að „frekari rannsókn leiddi í ljós hvort grunur um afbrot beinist formlega að einhverjum“.

Fjögur rör eru í gasleiðslunum tveimur, Nord Stream 1 og Nord Stream 2. Talið er að mörg hundruð kíló af sprengiefni hafi þurft til að valda tjóninu á leiðslunum þar sem þrjú röranna voru eyðilögð.

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu magnaðist spenna vegna leiðslanna. Nord Stream beið þá að verða tekin í notkun og var hætt við það. Rússar minnkuðu mjög gasmagnið sem sem fór um Nord Stream 1 og breyttu streyminu til að ná fram pólitískum markmiðum, það er minnka stuðning Þjóðverja við Úkraínumenn. Frá því að skemmdarverkið var unnið hefur ekkert gas farið um leiðslurnar.

Svíar hófu sakamálarannsókn í efnahagslögsögu sinni og var fyrsta niðurstaða hennar sem sagt birt 18. nóvember. Danir hafa einnig rannsakað skemmdarverkin í efnahagslögsögu sinni en ekki sagt neitt um niðurstöður sínar.

Sænska öryggislögreglan (SÄPO) framkvæmir rannsóknina af hálfu Svía undir stjórn saksóknara. Þá hefur sænska strandgæslan og flotinn átt hlut að rannsókninni. SÄPO sendi einnig frá sér tilkynningu 18. nóvember og staðfesti það sem saksóknarinn sagði. Hvorki SÄPO né saksóknarinn sögðu meira en að fyrsta niðurstaða rannsóknarinnar leiddi skemmdarverk í ljós.

Rússar sögðu snemma í nóvember að um það bil 250 metrar af Nord Stream 1 leiðslunni hefðu eyðilagst og fundist hefðu sprengjugígar, þriggja til fjögurra metra djúpir, í hafsbotninum.

Gas var í leiðslunum þegar sprengingarnar urðu þótt þær væru ekki í notkun. Sáust merki um gasstreymið á yfirborði sjávar.

Nýlega birtust fréttir um að gervihnattarmyndir sýndu tvö myrkvuð skip á siglingu skammt frá skemmdarverkastaðnum.

Rússar hafna því að þeir hafi staðið að skemmdarverkunum og saka Breta um að hafa unnið þau. Bretar saka Rússa um að fara með fleipur, Bretar hafi ekki komið þar nærri.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …