
Hópur stjórnarandstæðinga í Belarús næstum gjöreyðilagði rússneska njósnavel af gerðinni Beriev A-50 með bækistöð á flugvelli í Belarús á milli þess sem hún var notuð til að finna og staðsetja skotmörk fyrir rússneska herinn í Úkraínu. Sendi hópurinn dróna til að kasta sprengjum á vélina sunnudaginn 26. febrúar.
Fréttir herma að A-50 vélin hafi sex sinnum verið send inn yfir Úkraínu á vegum Pútins og rússneska hersins.
Sérfræðingur bresku hugveitunnar Chatham House segir að árásin sýni Rússum að ekki sé unnt að tryggja öryggi verðmætra hergagna þeirra og búnaðar í Belarús. Flugvélin er metin á um 50 milljarða ísl. kr.
Rússar halda aðeins úti níu sambærilegum flugvélum þeirri sem nú er löskuð eftir árásina.
Um margra mánaða skeið voru unnin skemmdarverk á lestarkerfi Belarús til að hindra ferðir rússneskra hergagna með járnbrautarlestum um landið.
Fyrrverandi starfsmenn öryggissveita í Belarús sem sögðu af sér til að mótmæla aðför einræðisstjórnar landsins að friðsömum mótmælendum eftir svindlið í forsetakosningunum í ágúst 2020, mynduðu samtökin Bypol sem segjast hafa framið skemmdarverkið á rússnesku njósnavélinni.
Aliaksandr Azarau, leiðtogi hópsins, sagði að undirbúningur verknaðarins hefði staðið í marga mánuði og þeir sem ábyrgðina bæru hefðu þegar yfirgefið Belarús.
Bypol sagði að vélin væri svo illa farin að henni yrði ekki flogið oftar. Er sagt að vélin sé löskuð væði að framan og við vængi auk þess sem ratsjá ofan á vélinni sé ónýt.
Franak Viacorka, náinn ráðgjafi Sviatlönu Tsikhanouskaju, forystukonu stjórnarandstæðinga í Belarús, sagði þetta mikilvægustu árás sem gerð hefði verið innan Belarús frá því að stríðið í Úkraínu hófst.
Keir Giles, sérfræðingur hjá Chatham House hugveitunni, segir mun meira í húfi fyrir Rússa en þessi flugvél vegna skemmdarverksins. Vissulega skipti máli að eyðilögð sé flugvél sem nota megi til að finna samtímis allt að 60 skotmörk í öðru landi en hitt sé ekki síður áfall fyrir Rússa að dýrmætar eignir þeirra séu ekki öruggar í Belarús.
„Þetta hefur ekki aðeins leitt til þess að reiðir menn hafa hringt frá Moskvu til Minsk [höfuðborgar Belarús] með kröfum um aðgerðir – Rússar neyðast kannski líka til að flytja viðkvæm skotmörk lengra inn í Rússland sjálft þeim til verndar.“

Hershöfðinginn niðurlægður
Sameiginleg herstjórn Belarús og Rússlands hefur verið sett upp í Belarús og efnt hefur verið til sameiginlegra heræfinga undir stjórn hennar.
Rússneski hershöfðinginn Aleksandr Matovnikov (57 ára) fer fyrir her Rússa í Belarús.
Eftir að skemmdarverkið á A-50 vélinni var unnið birtist 44 sekúndna myndskeið af honum á samfélagsmiðlinum Telegram þar sem hann sést dansa nakinn.
Í texta sem fylgir myndskeiðinu segir að hann sé „ákafur smekkmaður þegar litið sé til veitingastaða og kvenna í Minsk“.
Þá segir að honum falli vel að „flytja ábyrgð á töku ákvarðana til undirforingja sinna. Hershöfðinginn kýs frekar að taka þátt í gerð myndskeiða um svipað efni fyrir vinkonur sínar.“
Matovnikov hershöfðingi er nú annar æðsti yfirmaður landhers Rússa. Hann átti sæti í öryggisráði Rússlands sem stendur næst forsetanum og var fulltrú Vladimirs Pútins sem herstjóri á hernaðarlega mikilvægu herstjórnarsvæði Rússa í Norður-Kákasus.