Home / Fréttir / Skemmdarverk á Nord Stream staðfest – samsæriskenning á Fox News

Skemmdarverk á Nord Stream staðfest – samsæriskenning á Fox News

Gasflekkur yfir sprengjustaðnum 26. septrember 2022.

Frá því var skýrt í Kaupmannahöfn að morgni þriðjudags 18. október að rannsóknir Kaupmannahafnarlögreglunnar, danska hersins og leyniþjónustu lögreglunnar (PET) hefðu staðfest að sprengjur hefðu valdið tjóninu sem varð á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum í efnahagslögsögu Dana á botni Eystrasalts við Borgundarhólm mánudaginn 26. september 2022.

Í opinberri tilkynningu um rannsóknirnar segir að verulegt tjón hafi verið unnið á gasleiðslunum.

Dönsk yfirvöld hafa sagt, eins og stjórnvöld margra annarra landa, að unnið hafi verið skemmdarverk á gasleiðslunum. Þrjú af fjórum rörum sem um er að ræða eru eyðilögð. Ekki hefur verið bent á neinn sem talið er að hafi staðið að verkinu og grunsemdum hefur ekki verið beint að neinum.

Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, sagði þriðjudaginn 18. október:

„Þegar á allt er litið blasir við að þarna hafi orðið mjög öflug [sprenging] og ekki fyrir tilviljun. Þetta er ekki slys heldur skipulagt.“

Kaupmannahafnarlögreglan segir of snemmt að segja hvenær rannsókninni ljúki. Unnið verði að henni með PET og öðrum viðeigandi dönskum stofnunum í Danmörku og öðrum löndum. Danski herinn hafi sent menn til að rannsaka aðstæður á hafsbotni Eystrasalts.

Lögreglan upplýsir ekki um hvernig samstarfi við erlenda aðila er háttað en þar komi Svíar og Þjóðverjar við sögu ásamt fleirum.

Svíar eru sömu skoðunar og Danir um að skemmdarverk hafi verið unnið á gasleiðslunum innan sænsku efnahagslögsögunnar.

Þýska vikuritið Der Speigel skýrði frá því á dögunum með vísan til þýskra leyniþjónustumanna að sameiginlegum rannsóknum með Svíum hefði verið hætt þar sem þeir haldi trúnaðarupplýsingum fyrir sig og deili þeim ekki með öðrum af öryggisástæðum.

Þetta varð til þess að Trumpistinn og þáttastjórnandi á Fox News í Bandaríkjunumn, Tucker Carlson, hampaði enn á ný samsæriskenningu um að Bandaríkjamenn hefðu jafnvel með þátttöku Dana staðið að skemmdarverkinu á gasleiðslunum.

Bandaríkjastjórn hefur gefið til kynna að Rússar standi að baki árásinni á Nord Stream en Tucker Carlson segir að þöggun af hálfu Svía bendi til þess að í raun hafi Bandaríkjamenn verið að verki.

Rússar hafna alfarið öllum ásökunum í sinn garð vegna árásarinnar á gasleiðslurnar. Tucker Carlson styður málstað Rússa með samsæriskenningu sinni. Hann sætir víða gagnrýni fyrir að hafa oftar en einu sinni varið innrás Rússa í Úkraínu í þætti sínum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …