
Rússneskir herforingjar eru sagðir „skelfingu lostnir“ vegna krafna Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um að þeir hefji nýja sókn á mörgum vígstöðvum. Þeir eru sagðir óttast „gífurlegt mannfall“ og hafa „horfið frá voninni“ um sigur í stríðinu. Ný greining á mannfalli Rússa leiðir í ljós að tæplega 177.000 hermenn hafi fallið í stríðinu.
Dr. Valeríj Solovej, fyrrverandi prófessor við mikils virta Alþjóðamálastofnun Rússlands í Moskvu, þar sem stjórnarerindrekar og njósnarar eru þjálfaðir, segir að innan æðstu stjórnar rússneska hersins séu mjög skiptar skoðanir um fyrirmæli Pútins um „árás á mörgum vígstöðvum samtímis“.
Solovej sagði á sjónvarpsrás sem Mikhail Khodorkovskíj, auðmaður og andstæðingur Pútins, stendur að baki að herráð landhersins væri „skelfingu lostið“ vegna fyrirmæla Pútins. „Ég er ekki að ýkja,“ sagði hann. „Þeir eru skelfingu lostnir. Þeir eru hræddir um að tapa því sem eftir er af hernum í blóðbaðinu sem umlykur þá að fyrirmælum [Pútins].“
Þótt þeir hafi gefið upp alla von um að vinna sigur í stríðinu muni þeir fara að fyrirmælunum.
Dr. Solovej segir: „ Þeir heilsuðu einfaldlega að hermannasið: „Eins og yður þóknast, yðar hátign, þér eruð snillingurinn, þér vitið þetta betur en við, þér hófuð þetta allt, okkar hlutverk núna er að koma þessu heim og saman.“
Valerij Gerasimov hershöfðingi stjórnar nú innrásarher Rússa í Úkraínu. Solovej segir að yfirherstjórnin óttist að rússneski herinn verði ekki búinn til aðgerða áður en Úkraínumenn fái ný vopn, hættulegrí, nýrri og sóknbetri en það sem herinn hefur núna.
„Þess vegna er nú síðasta tækifærið til að reyna að gera árás á Úkraínu – þó án þess markmiðs að sigra,“ segir dr. Solovej:
„Það er mjög mikilvægt að skilja þetta. Þetta markmið er ekki [lengur] á dagskrá. Markmiðið er allt annað – að ljúka stríðinu á virðingarverðan hátt. Það er að koma á friði.
Þetta snýst um að halda í eitthvað þótt lítið sé. Það er Donbas, hluta af nýju landsvæði – ekki það allt og verja Krím. Þeir búast ekki við meiru.“
Niðurstaða prófessorsins fyrrverandi er langt frá opinberri afstöðu Kremlverja sem halda því statt og stöðugt fram að hernaður Pútin sé á áætlun.
Á samfélagsmiðlinum Telegram segir General SVR, sem talin er síða með rætur innan rússnesku öryggislögreglunnar FSB, að örugg tala látinna rússneskra hermanna sé rúmlega 126.500, talan hefur hækkað um meira en 20.000 nú í janúar.
Auk þess er talið að í málaliðaherjum til stuðnings Pútin hafi rúmlega 44.000 liðsmenn fallið. Sé þessi tala rétt sýnir hún fall um 10.000 málaliða nú í janúar. Wagner-sveitirnar mynda stærsta málaliðaherinn og þangað hefur undanfarið safnast fjöldi fanga.
Þá segir General SVR að 6.250 rússneskir þjóðvarðliðar hafi fallið.
Samkvæmt þessu er mannfall rússnska hersins 176.863. Bent er á að tölur frá General SVR séu yfirleitt hærri en annarra.
Herráð Úkraínu segir að alls hafi 126.160 rússneskir hermenn fallið síðan stríðið hófst 24. febrúar 2022. Þá hafi Rússað tapað 3.197 skriðdrekum, 6.366 brynvörðum orrustu-ökutækjum, 5.037 farartækjum og olíubílum, 2.195 stórskotatækjum, 453 fjölskota flugskeytakerfum, 221 loftvarnakerfi, 293 flugvélum, 284 þyrlum, 1.947 drónum og 18 skipum.