Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti formlega fimmtudaginn 9. ágúst að komið yrði á fót geimher Bandaríkjanna og árið 2020 yrði til sjötta herráðuneytið innan varnarmálaráðuneytisins: geimhersráðuneytið. Þau fimm sem fyrir eru fara með málefni landhers, flughers, sjóhers, strandgæslu og landgönguliðs.
Í ræðu sem varaforsetinn flutti í Pentagon, húsakynnum varnarmálaráðuneytisins, kynnti hann einnig áform um nýja herstjórn, bandarísku geimherstjórnina, aðgerðaherafla og þróunarstofnun vegna geimhernaðar.
Fyrr í sumar kom á óvart þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti boðaði fyrirvaralaust að til yrði sjötta grein bandaríska heraflans, geimherinn. Síðan hefur varnarmálaráðuneytið unnið að formlegri tillögugerð um skipulag herstjórnar og herafla.
Varaforsetinn sagði þetta skref nauðsynlegt til að tryggja forystu Bandaríkjamanna í geimnum vegna harðnandi samkeppni og ógna frá Kínverjum og Rússum. Geimurinn hefði verið friðsæll og fámennur en nú væri hann þéttsetinn og ófriðsæll.
Að varnarmálaráðuneytið skiptist í ráðuneyti fimm mismunandi greina heraflans hefur staðið óbreytt frá 1947 þar til nú. Til að þessum áformum stjórnar Trumps verði hrundið í framkvæmd þarf atbeina Bandaríkjaþings. Talið er líklegt að þingmenn, einkum demókratar, vilji kynna sér málið mjög náið.
Jim Mattis varnarmálaráðherra lýsti á sínum tíma efasemdum um að nauðsynlegt væri að stofna sérstakt ráðuneyti innan varnarmálaráðuneytisins til að koma á fót sérstakri geimherstjórn. Hann styður nú áformin sem varaforsetinn kynnti í ræðu sinni.
Mark Kelly, fyrrv. geimfari, sagði „heimskulegt“ að stofna sérstakan geimher, það yrði aðeins tvíverknaður í stað þess að treysta alfarið á flugherinn til þeirra verkefna sem biðu í geimnum.