
Sjóræningjar réðust á fimm skip á fjórum dögum á Singapúr-sundi dagana fyrir jól. Á fáum siglingaleiðum heims eru fleiri skip á ferð en á Singapúr-sundi.
Aðfaranótt Þorláksmessu, mánudags 23. desember, var annars vegar ráðist á 105.000 lesta olíuskipið Bamzi og búlkafarmskipið Trust Star. Bamzi tók farm sinn í Basrah í Írak í nóvember og var á leið til Qingdao í Kína. Trust Star hélt frá Gautaborg í Svíþjóð í nóvember á leið til Huanghua í Kína.
Um borð í Bamzi urðu yfirvélstjórinn og vélstjóri á vakt varir við þrjá ræningja í vélarrúminu og var einn þeirra vopnaður hnífi. Vélstjórarnir kveiktu á neyðarkerfi skipsins og illvirkjarnir létu sig hverfa. Síðar fundust tveir smyrjarar bundnir í vélarrúminu.
Eftir leit um borð og að fenginni staðfestingu um að ekki væru óboðnir um borð hélt Bamzi áfram ferð sinni.
Um borð í Trust Star sá áhöfnin sex menn ryðjast um borð í skipið. Kveikt var á neyðarkerfi og mennirnir létu sig hverfa. Þeir höfðu fest tvo menn í bönd í vélarrúminu en þeim tókst að losa sig.
Skipstjóri Trust Star kallaði á aðstoð frá strandgæslu Singapúr sem fylgdi skipinu til hafnar. Eftir að strandgæslumenn höfðu farið um skipið og sannreynt að engu hefði verið stolið hélt skipið áfram för sinni.
Upplýsingamiðstöð The Regional Cooperation Agreement on Combating Piracy and Armed Robbery against Ships in Asia (ReCAAP) greindi frá því að föstudaginn 20. desember hefði verið ráðist á þrjú skip í Singapúr-sundi. Tvö skipanna voru búlkafarmskip og eitt var olíuskip.
Útilokar upplýsingamiðstöðin ekki að sami sjóræningjahópur standi að þessum ránum, það er 20. og 23. desember.
Miðstöðin segir að fram til 24. desember hafi sjóræningjar alls ráðist á 29 skip á sundinu á árinu 2019. Af skipunum voru 15 skipanna á leið til vesturs en 14 á leið til austurs.
Í tilkynningu miðstöðvarinnar eru stjórnendur allra skipa hvattir til að sýna ítrustu aðgæslu, gera sérstakar varúðarráðstafanir og láta næstu strandstöð vita strax um öll hættutilvik. Þá voru strandgæslustöðvar nálægra ríkja einnig hvattar til að auka eftirlit sitt og efla samvinnu sín á milli.