Home / Fréttir / Sjálfur Pútin talar um stríð – mismæli eða stefnubreyting?

Sjálfur Pútin talar um stríð – mismæli eða stefnubreyting?

Vladimir Pútin.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti notaði bannorðið „stríð“ í ræðu sem hann flutti fimmtudaginn 22. desemnber og féll þannig á eigin bragði. Almennir borgarar sæta langri fangelsisvist fyrir að nota orðið þegar þeir ræða um innrás Pútins í Úkraínu fyrir níu mánuðum, hana á að kalla „sérstaka hernaðaraðgerð“ vilji menn um frjálst höfuð strjúka og forðast lögreglu Pútins.

Rússlandsforseti barði sér á brjóst í ræðunni  sem hann flutti eftir að Vladimír Zelenskjí Úkraínuforseti hafði farið í skyndiheimsókn til Washington þar sem honum var tekið opnum örmum sem hetju og lofað stuðningi þar til yfir lyki í stríðinu við Rússa.

Pútin sagði að Rússar kipptu sér ekki upp við fréttirnar frá Washington og áréttaði jafnframt að Rússar vildu ekki stigmagna átökin í Úkraínu heldur „þvert á móti ljúka þessu stríði“.

Rússnesk yfirvöld beita hörku við að framfylgja banninu að nota orðið „stríð“ þegar rætt er um Úkraínu. Til dæmis var Alexei Gorinov í borgarstjórn Moskvu í júlí dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að hafa á borgarstjórnarfundi talað um börnin sem dáið hefðu í „stríðinu“.

Í fjölmiðlum velta menn því nú fyrir sér hvernig beri að túlka að Pútin noti nú orðið „stríð“ um þetta stríð sem á aðfangadag hefur staðið í 10 mánuði. Var þetta mismæli hjá rússneska forsetanum eða boðar þetta breytingu á afstöðu Pútins?

Jyllands Posten sneri sér til Flemmings Splidsboels, sérfræðings hjá Dansk Institut for Internationale Studier, Dönsku utanríkismálastofnuninni. Hann sérhæfir sig í rússneskum málefnum og segir þegar hann er spurður hvort þetta hafi einfaldlega verið mismæli hjá forsetanum:

„Ég held að þarna sé ekki annað á ferðinni. Ég yrði hissa ef hann ætlaði að breyta um stefnu og fara að tala um stríð. Ég get þó ekki útilokað að á þennan hátt vilji menn búa almenning undir nýja stefnu, mér sýnist þetta þó vera mismæli.“

Hann bendir á að rússneskir fjölmiðlamenn hafi ekki gert neitt veður út af orðavalinu og fólk almennt láti sér fátt um finnast. Í upphafi hafi Pútin talað um „sérstaka hernaðaraðgerð“ til að „selja“ rússneskum almenningi stríðið og það geri forsetinn enn.

„Rússneskum almenningi var seld innrásin á þennan hátt. Að þetta væri smávægilegt verkefni fyrir herinn, ekkert sérstakt. Þá skiptir lögfræði líka þarna máli, tali hann um stríð leiðir það til þess að virða verði sérstök lög og reglur, það vill Pútin forðast til að valda ekki öryggisleysi og ótta í samfélaginu,“ segir Flemming Splidsboel og bætir við:

„Ég get mér þess til að þetta hafi aðeins verið mistök. Hann talar jú um þetta öllum stundum og finnst kannski sjálfum skrýtið að kalla það sérstaka hernaðaraðgerð þegar þetta er ekkert annað en stríð.“

Þótt orðaval Pútins hafi ekki hreyft við rússneskum almenningi láta menn í hópi gagnrýnenda Pútins í sér heyra. Þar nefnir Jyllands Posten að Georgíj Alburov, náinn samstarfsmaður Alexeis Navalníjs, fangelsaða stjórnarandstæðingsisns, hafi skrifað á Twitter með vísan til dómsins yfir Gorinov borgarfulltrúa:

„Alexei Gorinov var dæmdur i sjö ára fangelsi fyrir að kalla stríðið stríð á fundi í borgarstjórninni. Vladimar Pútin kallaði einnig í dag stríðið stríð opinberlega á vinnustað sínum. Frelsið annaðhvort Gorinov eða setjið Pútin í sjö ára fangelsi.“

Þá segir The Washington Post að Nikita Juferev, sem sat í borgarstjórn St. Pétursborgar en er nú landflótta vegna andstöðu við stríðið, hafi beðið ákæruvaldið í Rússlandi að rannsaka hvort forsetinn hafi brotið lög með þessum ummælum sínum.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …